20.06.2019
Jafnvægistruflanir hjá MS-greindum geta stafað af MS-sárum í litla heila, þ.e. valdið truflunum á samskiptum á milli litla heila og líkamans, og vegna óbeinna áhrifa annarra MS-einkenna, eins og dofa, máttminnkunar, sjóntruflana, svima, vöðvaspennu og spasma, skjálfta, þreytu, verkja og ofurnæmi í fótum. Þessi einkenni aukast auðveldlega við þreytu og álag og í aðstæðum þar sem áreiti eru mörg, til dæmis í fjölmenni.
Ef heilinn reynir t.d. að senda boð til fóta um hreyfingu en skilaboðin ná ekki fram, getur það valdið truflun á jafnvægi og þar af leiðandi fallhættu.
Skyntruflanir geta haft áhrif á gang, dofi getur dregið úr skynjun einstaklingsins á því hvernig fætur hans snerta jörðina og ofurnæmi í fótum getur valdið hikandi göngulagi.
Jafnvægistruflanir þurfa þó ekki að vera MS-inu um að kenna.
Meðferð og góð ráð:
- Taugalæknar og heimilislæknar geta greint vandann og ráðlagt um meðferð eða úrlausn.
- Sjúkraþjálfarar geta einnig greint vandann ásamt því að veita upplýsingar og gefa góð ráð um æfingar, líkamsstöðu og hjálpartæki. Jafnvægisæfingar eru árangursríkar en mikilvægt er að halda líkamlegum styrk eins og unnt er. Þjónusta sjúkraþjálfara fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér.
- Til eru ökklaspelkur til stuðnings, auk gönguhjálpartækja, s.s. göngustafir, hækjur eða göngugrindur. Einnig hjálpartæki til að setja upp á heimilum, eins og handföng, baðbekkir eða baðstólar, eða á vinnustað. Sjá upplýsingar um verslanir með hjálpartæki hér.
- Aukaverkanir sumra lyfja geta valdið (meira) máttleysi og aukið fallhættu. Spurning er þá hvort hægt sé að breyta um lyfjategund.
- Hugænar æfingar geta þjálfað líkamlega færni, þ.m.t. jafnvægi:
- Beindu hugsun þinni að því sem þú ætlar að gera – sjáðu fyrir þér hreyfinguna áður en þú framkvæmir hana.
- Tölvuleikir og/eða sýndarveruleikaleikir geta hjálpað til við að þjálfa heilann og bæta jafnvægi. Sjá myndbönd til útskýringar hér (spænskt tal en enskur texti) og hér.
- Tónlist og taktmælar geta hjálpað til við ná upp jöfnum gönguhraða og bætt göngulag.
- Léttar æfingar, eins og jóga, geta aukið styrk og jafnvægi og dregið úr þreytu.
- Athugaðu hvort eitthvað í umhverfi þínu getur truflað göngu eða verið þér hættulegt, eins og lausar mottur og bleyta.
- Flýttu þér hægt!
Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir jafnvægisleysi. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.
Góð ráð frá MS-fólki:
- Ekki hika við að nota hjálpartæki. Það er ekkert spaug að detta og jafnvel beinbrotna.
- Gerðu jafnvægisæfingar í öruggu umhverfi.
Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við jafnvægisleysi, endilega deildu þeim með öðrum með því að skrifa okkur hér (þarf ekki að vera undir nafni).
Góðu ráðin verða birt og varðveitt hér – aðgengileg og öllum til góðs.
Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi
Fróðleiksmolar:
Hjá Styrk, sjúkraþjálfun, miða æfingar að því að efla styrk, færni, jafnvægi og úthald. Þjálfunin fer fram í tveimur hópum sem miða við getu og færni einstaklinganna. Þjálfunin er þó einstaklingsmiðuð.
Mjög góð aðstaða er hjá Styrk, bæði til hópþjálfunar og æfinga í tækjasal. Öllum er frjálst að koma og taka prufutíma eða fylgjast með. Æfingarnar þykja mikil áskorun, einstaklega fjölbreyttar og skemmtilegar. Enginn tími er eins.