Á fimmtudag lenda Andrei Floroiu og Keith Siilats frá New York sex manna Cessna-flugvél á Reykjavíkurflugvelli í því skyni að vekja athygli á MS sjúkdómnum. Reykjavík er fyrsti formlegi viðkomustaður hópsins. MS-félag Íslands mun taka á móti flugmönnunum, Andrei og Keith á Reykjavíkurflugvelli hjá BIRK Flight Services, á bak við Hótel Loftleiði klukkan 12:00 á hádegi á fimmtudaginn.

Ætlunin er að fljúga um alls 47 þúsund kílómetra og hafa viðkomu í 30 löndum. Með ferðinni er jafnframt ætlunin að safna áheitum til styrktar rannsóknum á MS og starfi MS-félaga, m.a. á Íslandi. Fólk er hvatt til að fjölmenna á Reykjavíkurflugvöll. Ómar Ragnarsson er þegar búinn að boða komu sína.

Aðalforsprakkinn að baki þessu bráðmerka átaki er Andrei Floroiu, fyrrverandi bankamaður og fjárfestir auk tveggja félaga sinna, sem allir hafa flugpróf, að ónefndri Margréti Kjartansdóttur, sem unnið hefur að skipulagningu og undirbúningi þessarar langferðar, sem í kílómetrum talið er nánast flugferð í kringum hnöttinn. Íslandsþáttur ferðarinnar hefur verið á hendi Margrétar.

Á ensku heitir ferðin FLY FOR MS eða Flogið í þágu MS og hefur hún vakið talsverða athygli vestra. Slagorð heimasíðu MS-flugferðarinnar er “Sky is not the limit.” Meðal annars birtist grein um hana í stórblaðinu Wall Street Journal snemma í ágúst. Fyrsti lendingarstaður verður í Kanada, þá Grænlandi en síðan hefst hin eiginlega MS-ferð með viðkomu Reykjavík á fimmtudaginn. Miðað við forsíðu Fly for MS, http://www.flyms.org, hefur dagskráin breytzt aðeins auk þess sem heimasíðan hefur verið stækkuð og efld.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á þeirri fyrirætlan MS-ferðalanganna að fara til staða í viðkomulöndunum og fljúga með MS-sjúklinga í meðferð, ef þeir búa afskekkt og eiga erfitt með að komast til læknis eða heimsækja spítala.

Sérstök ástæða er einnig til að vekja athygli á myndbandi, (sýnir hrökun en hvetur til jákvæðni) sem tekið var upp í nóvember 2007, þar sem Lauren Parrot, 23 ára gömul kona, sem greindist með MS 18 ára gömul, lýsir líðan sinni (á ensku). Þegar myndbandið var gert var hún í versnun, en hafði skömmu áður fengið þær gleðifréttir, að hún ætti að fara á Tysabri í stað betaferon, sem hún hafði fram að því.

Á myndbandinu sýnir hún okkur dæmi um vandamál hins daglega lífs MS-sjúklings, t.d. erfiðleika með gang og hversu erfitt það er fyrir hana að gera einfalda hluti eins og að setja á sig maskara vegna sjóntruflunar og titrings við hreyfingu.

Í maí s.l., 3 árum síðar, birti Lauren myndband (að lifa með MS - Tysabri og PML) þar sem hún er nánast óþekkjanleg frá gamla myndbandinu. Þegar upptakan var gerð í vor var Lauren búin að vera á Tysabri í 36 mánuði, hún lítur hraustlega út og hún segir frá nýjum niðurstöðum MRI (segulómskoðunar), sem sýna í grófum dráttum, að bólgur á heila hennar eru horfnar. Skoðið myndbandið. Breytingin á henni eftir Tysabri-meðferðina er nánast ótrúleg. Lauren Parrot hefur gert myndbönd reglulega um MS og áhrif sjúkdómsins á sig. Þessi myndbönd eru aðgengileg á síðunum, sem tengillinn nær í.

Samtals er gert ráð fyrir að MS-ferðalagið taki 300 klukkustundir á flugi. Að auki hyggjast Andrei og félagar að bjóða fólki í útsýnisflug á hverjum viðkomustað.

Gífurleg vinna liggur að baki MS flugferðinni vegna skipulags og undirbúnings. Að auki hafa sjálfboðaliðarnir í New York unnið mikið kynningarstarf um sjúkdóminn MS auk ferðarinnar. Sem dæmi má nefna, að Margrét, og flugmennirnir Andy, Keith og Paul efndu til söfnunarsamkomu, þar sem framtakið var kynnt, flugleiðin sýnd og viðstöddum að sjálfsögðu sýndir þeir möguleikar til áheita, sem gefast á heimasíðunni . Að sögn Margrétar Kjartansdóttur tókst samkoman mjög vel og mættu um 250-300 manns.

En ekki nóg með það. Í bréfi til okkar greindi Margrét frá því “að á dögunum héldum við fyrirlestur og opna umræðu á skrifstofu Google fyrirtækisins hérna í New York. Einn af sjálfboðaliðum okkar, Tudor, vinnur fyrir fyrirtækið. Hann, ég og tveir forsprakkar hópsins fengum að tala þar um MS og uppátæki okkar í klukkutíma við starfsmenn Google og fólk sýndi mikinn áhuga og stuðning, og vildi sérstaklega fá að fræðast um MS og hvernig það er að lifa með MS.”

“Síðast en ekki síst,” segir Margrét, “ákváðum við að fara í útsýnisferðir yfir Manhattan með fólk og renna allar greiðslur fyrir flugið til málefnisins. Við fórum í tvær útsýnisferðir í síðustu viku og munum halda áfram þangað til haldið verður til Íslands.”


Að auki má nefna að stofnuð hefur verið Facebook síða fyrir átakið og er slóðina að finna hér.

Við viljum hvetja allt MS-fólk, aðstandendur og áhugamenn til að fjölmenna á Reykjavíkurflugvöll, bak við Hótel Loftleiði klukkan tólf á fimmtudag og sýna þeim félögum stuðning sinn í verki.

hh