Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Flestar konur sem greinast með MS eru á aldrinum 20 til 40 ára, þ.e. á barneignaraldri. Hingað til hefur konum sem hyggja á barneignir eða eru þegar orðnar ófrískar verið ráðlagt að hætta á lyfjameðferð þar sem engin gögn hafa hingað til sýnt fram á skaðleysi MS-lyfja á fóstur.
Í byrjun mánaðarins tilkynnti lyfjafyrirtækið TEVA að gögn úr alþjóðlegum lyfjagátagrunni fyrirtækisins, sem borin voru saman við tvo stóra bandaríska og evrópska gagnagrunna, bendi til þess að konur með MS, sem sprauta sig daglega með 20 mg/ml upplausn á meðan á meðgöngu stendur, eru ekki í meiri hættu á að fæða börn með fósturgalla heldur en konur almennt.
Í lyfjagátakerfi Teva er að finna gögn um yfir 7.000 meðgöngur kvenna með MS í meðferð með Copaxone, á 20 ára tímabili.
Niðurstöðurnar voru birtar á vefsíðu International Journal of MS Care (IJMSC). Þykja niðurstöðurnar benda til að meðferð með Copaxone á meðan á meðgöngu stendur sé örugg og hafi ekki skaðleg áhrif á fóstur.
Alltaf er þó ráðlegt að spyrja taugalækni sinn eða MS-hjúkrunarfræðing ráða um lyfjameðferð ef par, þar sem annar hvor aðilinn er með MS og er á lyfjameðferð, hyggur á barneignir eða kona er þegar orðin ófrísk. Læknir getur þá metið hvort ávinningur af lyfjameðferð vegi upp á móti áhættu af notkun þess, hvort breyta þurfi lyfjameðferð eða hversu lengi er ráðlagt að vera án lyfja áður en barneignir eru reyndar - og fyrir konur hvenær þær byrji að taka aftur lyf eftir barnsburð.
Upplýsingar um Copaxone má finna hér
Heimildir:
International Journal of MS Care (IJMSC) hér
Teva Pharmaceutical Industries Ltd hér
Mynd:
telegraph.co.uk
Bergþóra Bergsdóttir