08.06.2012
Við MS-fólk vitum að hiti getur haft mikil áhrif á einkenni sjúkdómsins. Þau geta magnast og ný einkenni gert vart við sig. Því er áhugavert að rifja upp ýtarlega grein sem Garðar Sverrisson tók saman fyrir Megin Stoð árið 1998 um áhrif hinna ýmsu áreita á MS sem Dr. Lous J. Rosner, prófessor í taugasjúkdómum við UCLA, telur vert að gefa gaum.
Einn kaflinn í samantekt Garðars fjallar um hita og MS og þar kemur eftirfarandi fram:
„Þó svo flest okkar hafi fyrir því óyggjandi reynslu hvernig hiti getur aukið á MS einkenni, fer því fjarri að þessi áhrif hafi alltaf verið viðurkennd. Á fjórða áratugnum álitu læknar að hiti væri MS sjúklingum til góðs, og margir ráðlögðu sérstaka hitameðferð. Þar eð læknar vissu að tíðni MS fór vaxandi eftir því sem fjær dró miðbaug ráðlögðu þeir gjarnan sjúklingum á norðlægum slóðum að flytja sig í hlýrra loftslag. Í dag vitum við að hækkun líkamshita um einungis hálfa gráðu, fimm kommur, hvort heldur er fyrir áhrif ytri hita eða sýkingar, getur ekki einungis valdið því að gömul einkenni taki sig upp tímabundið, heldur einnig að ný einkenni láti á sér kræla. Menn voru varla fyrr búnir að átta sig á þessum áhrifum hitameðferðar en farið var að nota hana til að komast nærri um það hvort viðkomandi væri með MS. Nú var með öðrum orðum talið líklegt að við værum með MS ef við þyldum illa gömlu hitameðferðina.
Það getur tekið nokkurn tíma fyrir fólk að gera sér grein fyrir samhenginu milli hitans og MS-einkenna, sérstaklega ef heitt bað, heitir pottar eða gufa eru fastir liðir í daglegum venjum. Smám saman ættu þó flestir að geta fundið út úr því sjálfir hvað þeir geta boðið sér í þessum efnum, því það er síður en svo einhlítt. Á meðan einn getur leyft sér að vera stundarfjórðung í fjörutíu gráðu heitu vatni getur annar misst alveg máttinn og farið sér að voða við sömu aðstæður. Sama gildir þegar legið er í heitri sól. Einn kann að koma hress og endurnærður úr sólbaði meðan klukkustund í sól verður til þess að annar missir sjónina. Einkenni sem þessi, sem verða fyrir áhrif ytri hita, eiga það þó sammerkt að í langflestum tilvikum ganga þau til baka á innan við sólarhring, jafnvel á einni til tveimur klukkustundum.
Ekki er fullljóst hvort mikill hiti getur komið af stað nýju kasti. Líklegt þykir þó að svo geti verið þegar líkamshiti hækkar verulega vegna sóttar, en síður þegar um utanaðkomandi hita er að ræða. Engu að síður er það góð regla fyrir MS-sjúklinga í kasti, og þá sem ekki eru búnir að jafna sig eftir kast eða finna til einkenna, að forðast að vera í of miklum hita, hvort heldur er um að ræða heit böð, gufu eða sólböð. Lendi menn í vandræðum vegna hita geta þeir gripið til þess einfalda ráðs að taka inn asperín. Það fæst reyndar ekki hér á landi en panodil, parasetamol, paratabs eða önnur sambærileg hitalækkandi lyf gera sama gagn. Þau lækka líkamshita og geta lagað og komið í veg fyrir einkenni á borð við sjóntruflanir. Þá geta kaldir bakstrar komið að góðum notum.“
Við höfum mörg okkar reynslu af því hve sótthiti getur farið illa í okkur. Við verðum máttfarin og finnum oft fyrir meiri dofatilfinningu og missum eins og dálítið samband við hendur og fætur og verðum „Barbapabbaleg“. Þetta er mjög óþægilegt ástand og okkur ekki hollt en sem betur fer geta hitalækkandi lyf hjálpað og sjálfsagt að nota þau.
Því er svipað farið með mikinn umhverfishita og sama ráðið virkar þar. Mörg okkar hafa bjargað utanlandsferðinni með „asperíntrikkinu“ eins og við segjum gjarnan. Síðustu sumur hefur veðurblíðan hér á landi einnig verið slík að full þörf er á að taka hitalækkandi lyf til að fá máttinn aftur í kroppinn.
Þessi aðferð er ein af mörgum sem léttir lífið og hjálpar okkur í dagsins önn. Hvers vegna ættum við að slá hendi á móti því?
SÁ (Úr MeginStoð 1. tbl. 2012 29. árg.)