Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Fjölmargar rannsóknir eru nú gerðar á mögulegu orsakasamhengi á milli örveruflóru meltingavegar og einstaklinga með MS. Fleiri og fleiri rannsóknir benda til þess að bakteríur í þörmum hafi áhrif á sjúkdómsframvindu MS-greindra.
Tvær nýjar rannsóknir sýna að einstaklingar með MS hafa það sammerkt að vera með óheilbrigða eða óhagstæða örveruflóru í þörmum, sem örvar bólgumyndun í heila. Það er því dálítið mótsagnarkennt að ákveðin bakteríutegund, sem finnst í þörmum, getur mögulega gagnast til meðferðar á sjúkdómnum.
Vísindamenn frá Mayo Clinic í Bandaríkjunum komust nýlega að því að ákveðin örvera, eða baktería, í þörmum manna, sem heitir Prevotella histicola (P. histicola), virðist hægja á sjúkdómsframvindu MS í músum.
Þegar vísindamennirnir komu P. histicola fyrir í þörmum músa, sem búið var að sýkja með MS-líkum einkennum, gerðist það að virkni tveggja tegunda skaðlegra bólgufrumna í blóði músanna minnkaði en magn „góðkynja“ ónæmisfrumna, sem vinna gegn bólgum, jókst. Við það hægði á sjúkdómsframvindu músanna.
Dr. Joseph Murray, einn vísindamannanna, er bjartsýnn og segir niðurstöðuna gefa vísbendingu um að örveran geti komið til með að geta gegnt mikilvægu hlutverki í meðferð á MS.
Th17-frumur gegna mikilvægu hlutverki í þörmum en eru taldar valda sjálfsónæmis- og bólgusjúkdómum, eins og MS. Hærra hlutfall þeirra en almennt gerist, tengist mikilli sjúkdómsvirkni MS.
Rannsókn ítalskra vísindamanna leiddi í ljós að MS-greindir einstaklingar með mikla sjúkdómsvirkni og þá meira magn Th17-frumna í þörmum, voru einnig með hærra hlutfall Firmicutes og Bacteroidetes-gerla, fleiri tegundir streptókokka (ákveðin tegund baktería) og minna hlutfall af hinum góðu Prevotella-örverum (sjá hér að ofan) heldur en heilbrigðir einstaklingar og MS-greindir einstaklingar án sjúkdómsvirkni hafa.
Frá fyrri rannsóknum með mýs er vitað, að þessir tilteknu gerlar og streptókokkar sem vísindamennirnir fundu, örva bólgumyndun í heila á meðan Prevotella-örveran er „góðkynja“ og getur hindrað bólgumyndun með því að framleiða bólgueyðandi umbrotaefnið propionat, sem hamlar ofvirkni Th17-frumna.
Niðurstöðurnar sýna þannig að bólguviðbrögðin sem verða í heila MS-fólks tengjast breyttri bakteríusamsetningu og of miklu magni Th17-frumna í þörmum.
En hvað orsakar hvað? – Er það aukning Th17-frumna í þörmum (og ákveðin samsetning þarmaflóru) sem á þátt í MS-sjúkdómnum eða er það aukin sjúdómsvirkni MS-einstaklingsins sem veldur auknum fjölda Th17-frumna í þörmum hans og breytir þannig samsetningu þarmaflóru hans?
Um þetta er enn ekki vitað en verður ábyggilega rannsakað áfram.
Til að koma jafnvægi á þarmaflóru sína eða viðhalda heilbrigðri örveruflóru er um að gera að neyta gerlaríkrar fæðu (t.d. jógúrt) eða taka inn meltingargerla, en ekki síst borða holla og næringarríka fæðu, sjá ráðleggingar Landlæknis um mataræði hér.
Lesa má nánar um rannsóknirnar hér og hér.
Heimildir: hér, hér, hér og hér
Mynd: Creative common leyfi
Bergþóra Bergsdóttir