Ný rannsókn hefur leitt í ljós, að ein af fyrstu pillunum, sem ætlaðar eru MS-sjúklingum, sem fá svokölluð MS köst með hléum og eiga að draga úr þessum köstum, virka gegn sjúkdómnum. Aukaverkanir eru hverfandi. Frá þessu var greint í júníhefti fræðiritsins The Lancet, sem kom út á laugardaginn, þ. 21. þessa mánaðar.

Enda þótt lyfið, sem heitir laquinimod, sé tilraunalyf og enn á tilraunastigi, þá vekur fréttin um nýju pilluna sérstaka athygli, því MS-sérfræðingar eru þess fullvissir að með því að hafa lyf í pilluformi tiltækt geri það meðferð MS-sjúklinga mun þægilegri og ekki sízt handhægari fyrir sjúklinga. Þverskurður heila

Margs konar meðferðarúrræði eru til við sjúkdómnum multiple sclerosis, en í allri lyfjameðferð þarf enn að notast við sprautulyf eða annars konar “vökvalyf”, og einungis sprautulyf hafa fengið opinbera viðurkenningu.

“Að öllu jöfnu virðist þessi pilla ekki jafnöflug og kröftugustu sprautulyfin á borð við tysabri,” sagði dr.John Richert, einn af yfirmönnum rannsókna og klínískra verkefna hjá MS-samtökum Bandaríkjanna (National MS Society) í viðtali við bandaríska stórblaðið Washington Post. (Byrjað var að gefa íslenzkum MS-sjúlingum tysabri í byrjun ársins).

Richert sagði, að þótt styrkur pillunnar væri minni en t.d. tysabri hygði hann þó, að sjúklingar og fyrirtæki (sjúkrastofnanir) teldu almennt, að kosturinn við að hafa lyf við höndina, sem þyrfti bara að gleypa gerði þau að aðlaðandi og spennandi viðbót í meðferðarvopnabúrið, sem MS-sjúklingar hafa aðgang að núna.

Fréttir af jákvæðum rannsóknarniðurstöðum um MS-pilluna hafa farið víða undanfarna daga enda væri bylting fólgin í því að á markaðinn kæmi hugsanlega lyf í pilluformi, sem tæki að einhverju marki við af sprautum, sem MS-sjúklingar hafa notað sjálfir heima eða þurft að fara í stutta sjúkrahússheimsókn, þar sem sett er nál í sjúklinginn og lyfið látið leka inn í líkamann. Þannig er t.d. lyfið tysabri gefið íslenzkum sjúklingum á LSH undir eftirliti á mánaðarfresti.

Dr. Richert hjá bandarísku MS samtökunum sagði við Washington Post, að mun meiri líkur væru á því að sjúklingar kysu að taka pillur fremur en að nota sprautur. En hann tók skýrt fram, að bíða yrði niðurstöðu þriðja stigs laquinimod rannsóknarinnar. “Núna lofa niðurstöðurnar góðu og vissulega þyrstir sjúklinga í að fá lyf, sem er í pilluformi,” segir Richert.

Fyrst var greint frá laquinimod-pillunni á ársfundi Bandarísku akademíunnar í taugafræðum 2007. Rannsóknin núna var annars stigs rannsókn með þátttöku rösklega 300 sjúklinga, en núna er í undirbúningi 3. stigs rannsókn á laquinimod-pillunni með þátttöku 1000 sjúklinga. Stjórnandi rannsóknarinnar er ítalski læknirinn Giancarlo Comi, sem starfar við Vísindastofnun San Raffaele í Mílanó, en rannsóknina kostar Teva Pharmaceutical Industries.

Eldri 3. stigs rannsóknir á linomide (roquinimex), lyfi skyldu laquinimod leiddu í ljós alvarlegar aukaverkanir, hjartakvilla, og jafnvel hjartaáfall. Hætt var við rannsóknina, en hún stóð þó nógu lengi til að sýna að lyfið hefði tiltekna kosti. Vísindamenirnir fóru aftur í rannsóknarstofuna og leituðu leiða til að fjarlægja eituráhrif á hjartað í lyfinu. Niðurstaðan var jákvæð og þannig fæddist laquinimod.

Til þessa hafa 306 MS sjuklingar á aldrinum 18 til 50 ára verið valdir tilviljanakennt til að fá annað hvort stóran eða lítinn skammt af lyfinu daglega eða þá lyfleysu. Þeir sem fengu stærri skammtinn af laquinimod sýndu bezt viðbrögð: Hjá þeim fækkaði bólgum eða skemmdum um 40,4% samkvæmt segulómskoðun. Litlu skammtarnir sýndu nánast enga bót.

Reynslan hefur kennt vísindamönnum á sviði taugafræði með MS sem sérgrein að
ofmeta ekki jákvæðar niðurstöður rannsókna, sem eru komnar jafnlangt á veg og MS-pillurannsóknin ítalska. Svo vitnað sé enn í dr. Richert hjá bandarísku MS samtökunum, þá bendir hann á að vissulega hafi ýmsar rannsóknir, sem voru langt komnar, brugðist á lokasprettinum. “Þáttur ágizkunar er ávallt talsverður, þegar reynt er að spá um hver lokaniðurstaðan verður.”

Að sögn höfunda rannsóknarinnar er 3. stig rannsóknarinnar að hefjast. Þeir starfa allir við Stofnun um tilraunataugafræði við Háskólann Vita-Salute í Mílanó á Ítalíu.-h

Frekari upplýsingar eru á vef National Multiple Sclerosis Society


Frétt Washington Post:
Oral Drug Reduces Disease Activity in Phase 2 Study - 19. júní 2008

 

Frétt FOX sjónvarpsstöðvarinnar í gær

Study: Pill Slows Effects of Multiple Sclerosis

 

Frétt REUTERS-fréttaþjónustunnar19. júní 2008
Study shows Teva's laquinimod slows MS