Pokasjóður úthlutaði s.l. þriðjudag 71 milljón króna í 82 verkefni við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Að þessu sinni var lögð áhersla á að styrkja verkefni á sviði umhverfismála, menningar, mannúðar, íþrótta og útivistar um allt land. MS Setrið hlaut 300 þúsund króna styrk fyrir árlegri sumarferð Setursins sem að þessu sinni verður í Munaðarnes.

Samtals var 20 milljónum króna úthlutað til fjölbreyttra verkefna í þágu barna og ungmenna. Styrkir til umhverfismála námu tæpum 38 milljónum króna. Frá upphafi hefur Pokasjóður úthlutað um 1.300 milljónum króna.

Að Pokasjóði standa 160 verslanir um land allt, matvöruverslanir, vínbúðir og sérvöruverslanir. Pokasjóður fær tekjur sínar af sölu plastburðarpoka í þessum verslunum. Formaður stjórnar Pokasjóðs er Bjarni Finnsson.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Ólínu Ólafsdóttur veita styrknum móttöku.