Í dag var kunngjört nýtt heiti á Dagvist og endurhæfingarmiðstöð MS. Að lokinni samkeppni um nafn komst dómnefnd að þeirri niðurstöðu, að velja nafnið MS Setrið. Til að skerpa heitið er undirtitill MS Setursins: þekking, þjálfun, þjónusta. Vinningstillöguna átti Bergþóra Bergsdóttir sem fékk vasa eftir leirlistakonuna Kolbrúnu Kjarval í verðlaun.



Í tilefni af nýja nafninu “MS SETRIÐ – þekking, þjálfun, þjónusta” og verðlaunaveitingu var efnt til kaffisamsætis í MS Setrinu, þar sem dómnefnd gerði grein fyrir niðurstöðu sinni. Hún byggði á því, að nýja nafnið væri þjált, fallbeygðist auðveldlega, skírskotaði greinilega til starfseminnar og væri gamalgróið, íslenzkt nafn.



Í dómnefnd sátu:
Þuríður Ragna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri d&e MS
Sólveig Óskarsdóttir, frá dagvistinni
Daníel Kjartan Ármannsson, meðstjórnandi í MS-félagi Íslands.

 

Fjöldi tillagna barst og var dregið úr innsendum tillögum og hlutu fimm neðangreindir einstaklingar geisladiskinn ”Á Ljúflingshól” í aukaverðlaun þar sem Sigríður Thorlacius og Heiðurspiltar flytja lög Jóns Múla: Pálína H. Ísaksdóttir, Heimir Hannibalsson, Jón Guðlaugur Þórðarson, Helga Torfadóttir og Helga Sigurðardóttir.

Berglind Guðmundsdóttir, formaður og Þuríður Ragna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri

Bergþóra Bergsdóttir gat ekki verið viðstödd verðlaunaafhendinguna, en Berglind formaður afhenti henni verðlaunagripinn síðar um daginn. Hér sjást þær Þuríður Ragna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri MS Setursins og Berglind formaður með verðlaunagripinn.

 

Almenn ánægja var með nýja nafnið á meðal þeirra sem viðstaddir voru athöfnina í dag
og var kátt á hjalla og hin bezta kaffihúsastemming.


MS-félagið gaf MS Setrinu tertu í tilefni dagsins og Haraldur Gunnar Hjálmarsson lék nokkur lög á píanóið.

- hh