Margir hafa óljósa hugmynd um að MS tengist hjólastól á einhvern hátt. Sú var kannski raunin fyrr á tímum en með lyfjum sem hefta sjúkdómsvirkni og milda einkenni lifa mun fleiri góðu lífi með sjúkdómnum.

Fjöldi MS-greindra hafa væg eða engin einkenni eftir mörg ár með sjúkdóminn og flestir lifa virku og sjálfstæðu lífi í mörg ár eftir greiningu.

 

Á komandi vikum verða vikulega birtir stuttir fróðleiksmolar til að auka skilning samfélagsins á MS-sjúkdómnum og einkennum hans. Það er því um að gera að deila þessum fróðleiksmolum á fésbókinni svo að sem flestir sjái.

 

Hvað er MS?

MS er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu, þ.e. heila og mænu, þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugaþræði (taugasíma) og ræður hraða og virkni taugaboða.

Afleiðingarnar felast í örum eða sárum á mýelínið (taugaskemmdir) sem hafa áhrif á leiðni taugaboða þannig að boð um til dæmis hreyfingu, tal eða hugsun truflast og ná illa eða ekki fram til tilætlaðra líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.

Einkennin ganga að jafnaði til baka að hluta eða öllu leyti eftir nokkra daga eða vikur (MS-kast) en með tímanum geta einkennin orðið meira viðvarandi.

 

Taugafruma 

 

Örin (skemmdirnar) geta verið mörg og víðs vegar um miðtaugakerfið sem skýrir nafn sjúkdómsins, multiple sclerosis (MS) sem þýðir „mörg ör“.

MS er ekki smitandi. Þáttur erfða er lítill og sjúkdómurinn hefur ekki mikil áhrif á lífslíkur.

 

 

Sjá fræðslubæklinga MS-félagsins hér.

 

Úr bæklingnum Almennur fróðleikur. Höfundar: Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi MS-félagsins og Haukur Hjaltason, taugalæknir.

Mynd: Högni Sigurþórsson, grafískur hönnuður.

Myndatexti: Vísindavefurinn - Þuríður Þorbjarnardóttir, líffræðingur.