Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Evrópusamtök fatlaðra (EDF) skora á Evrópuráðið og þingið og aðrar evrópskar stofnanir og stjórnvöld innan Evrópu, að tryggja að fatlað fólk og fjölskyldur þess muni ekki gjalda fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu með minnkandi tekjum, bótum, tækifærum til atvinnu eða niðurskurði styrkja til félagasamtaka fatlaðra.
Á þriðjudag var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, “að lögð verði áhersla á að halda núverandi þjónustustigi heilbrigðiskerfisins” þrátt fyrir tillögu fjármálaráðuneytisins um 12 milljarða sparnað. Von er á sparnaðartillögum ráðuneytisins í dag, fimmtudag, og vonandi verða MS-sjúklingar ekki fyrstu fórnarlömb 10% sparnaðarins.
Að “halda núverandi þjónustustigi” dugir MS-sjúklingum nefnilega ekki, því þeir telja sig hafa verið’ svikna um Tysabri-meðferð, sem búið var að lofa 50 þeirra á árinu 2008. Núna hafa 28 MS-sjúklingar fengið Tysabri og nema vanhöldin þannig tæpum 50%. MS-sjúklingar eigi því inni hjá stjórnvöldum.
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, og Valgerður Ósk Auðunsdóttir, ritari ÖBÍ, sóttu fund EDF í París á dögunum, þar sem ályktun þessa efnis var gerð opinber 16. nóvember. Þar segir að kreppan sé til komin vegna óábyrgra lánveitinga og óásættanlegs gáleysis af hendi þeirra sem stjórna fjármálafyrirtækjum og eftirlitsaðila þeirra. Svar stjórnvalda við „skipbroti lánsviðskipta“ hafi verið að búa til fjármagn til að ganga í veð fyrir bankana.
Núna þegar þetta vantraust breiðist yfir í almenna fjármálakerfið sé lífsnauðsynlegt að fátækir, aldraðir, fatlað fólk og fjölskyldur þeirra í Evrópu muni ekki gjalda fyrir þessa kreppu. Eins og greint er frá hér í frétt hér að neðan er fyrirhugaður á næstu dögum fjöldafundur Félags eldri borgara, ÖBÍ og fleiri. Þar verður væntanlega lögð áherzla á sömu meginatriði og fjallað er um í ályktun EDF auk séríslenzkra mála.
Megináherzla MS-félagsins verður að sjálfsögðu sú, að stjórnvöld skeri ekki niður við trog Tysabri-lyfjagjöf handa MS-sjúklingum á næsta ári og standi við loforð sitt um, að þeir sem þurfi fái langbezta viðnámslyfið gegn þessum sjúkdómi og standi þannig við ákvæði laga um sjúklinga, þar sem segir, að sjúklingar eigi ávallt rétt á beztu fáanlegu meðferð. Þessi meðferð er að gefa MS-sjúklingum Tysabri, sem það þola.
Í upphafi ársins 2008 var því heitið, að 50 MS-sjúklingar myndu fá Tysabri-meðferð á þessu ári, sem nú er að renna sitt skeið á enda. Einungis 28 einstaklingar hafa fengið lyfið fram til þessa þrátt fyrir, að Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, hafi ítrekað loforðið um að 50 MS-sjúklingar fengju Tysabri á árinu 2008. “Afgangssjúklingarnir” 22 bíða milli vonar og ótta um það hvort lífsgæði þeirra verði bætt.
Það væri því mikið slys, ef MS-sjúklingar verða fyrstu fórnarlömb efnahagskreppunnar á Íslandi.
Í ályktun Evrópusamtaka fatlaðra segir orðrétt:
„Ástandið fyrir kreppu var ótryggt, því biðjum við um aukningu á útgjöldum til fjárfestingar í uppbyggingu á velferðarkerfinu, á bætur og ákvæði um skattaafslætti, svo að þessir hópar geti keypt vörur og þjónustu og með því bætt fjármálaástandið.”
Jafnframt skora samtökin “á þá sem bera ábyrgð á fjármálalegum ákvörðunum stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að komið verði fram við fatlað og fátækt fólk af jafnrétti og að fjármálastaða þeirra sé tryggð í þeim aðgerðum sem settar verða af stað á þessum tímum. Núna er tími mikilla aðgerða svo að árið 2010 – Ár gegn fátækt í Evrópu – verði fatlaðir og aðrir minnihlutahópar ekki aftur efst á dagskrá.“ - hh
PDF - Ályktun EDF
HTML - Ályktun EDF um efnahagskreppuna: Fatlaðir eiga ekki að borga fyrir kreppuna