Vígsluflöt við Borgarstjóraplan. Ekkert smánafn. Þarna héldu vinkonurnar og jafnöldrurnar Jónína Unnur Gunnarsdóttir og Jórunn Jónsdóttir upp á fertugsafmæli sín fyrr í sumar. Ekki nóg með það, heldur ákváðu þær að efna til fjársöfnunar í minningu Áslaugar Guðmundsdóttur sem lézt í vor. Hún var með MS.

“Þetta “80 ára afmæli” okkar heppnaðist mjög vel og söfnunin gekk vel,” sagði Jónína í stuttu samtali við MS-vefinn. Raunar tóku þær vinkonurnar ákvörðun um að halda upp á fertugsafmæli sín með “stæl”, þegar þær voru staddar á ferðalagi í Ástralíu fyrir tveimur árum. Hugmyndin að söfnuninni kom svo eftir andlát Áslaugar Guðmundsdóttur í marz. 
                                                               
Þegar við vorum að undirbúa afmælisveizluna báðu þær son Áslaugar, Jón Sigurðsson, trúbador, um að taka lagið í veizlunni og þá vaknaði hugmyndin um að efna til samskota og styrkja MS-félagið í minningu Áslaugar, móður Jóns. Því má skjóta hér inn, að Jón Sigurðsson tók þátt í fyrstu Idol-keppninni og hreppti annað sætið í keppninni.

                                                                                                   Við afhendingu söfnunarfjárins: 
                                                                                                   “Afmælisbörnin” fr.v. Jónína Unnur Gunnarsdóttir
                                                                                                   og Jórunn Jónsdóttir og fulltrúar MS-félagsins
                                                                                                   Sigurbjörg Ármannsdóttir og Berglind
                                                                                                   Guðmundsdóttir.


“Við Jórunn erum búnar að vera vinkonur síðan við vorum fimm ára gamlar og við vildum halda myndarlega veizlu og þannig vaknaði hugmyndin að því að safna fjármunum í minningu Áslaugar, sem kæmu MS-félaginu vel,” sagði Jónína.

Veizlan varð hin myndarlegasta og sló Jónína á, að um 130 manns hefðu mætt. Auk trúbadorsöngs Jóns skemmti hljómsveitin Sixties afmælisgestum.

Alls söfnuðust um 100 þúsund krónur í afmælinu. Jónína sagði, að í raun væri söfnuninni ekki lokið, því söfnunarreikningurinn væri ennþá opinn og hvetja þær vinkonur velunnara MS-greindra Íslendinga til að leggja inn á reikninginn eftir efnum og ástæðum.

Reikningurinn er: 0301-13-141

MS-félagið þakkar þessum hressu vinkonum fyrir framtakið.  

H