Færð hafa verið sterk rök fyrir því, að orsakir MS sé trúlega að einhverju leyti að finna í umhverfinu. Bandarískir vísindamenn, sem hafa rannsakað erfðaefni tvíbura hafa komizt að þessari niðurstöðu, en niðurstöður rannsókna þeirra verða birtar í nýjasta hefti vísindaritsins Nature. MS-sjúkdómurinn lýsir sér í því, að taugaboð líkamans skila sér ekki alla leið, eins og þau eiga að gera. Svo sem lesendum MS-vefjarins er kunnugt er ekki vitað með neinni vissu hvað veldur. Þessi nýja rannsókn er talin mikilvægt innlegg í leitina að orsök MS.

Bandarísku vísindamennirnir, sem hafa rannsakað erfðaefni eineggja tvíbura - annar er með MS, hinn ekki - telja að þeir geti sýnt fram á, að eitthvað í umhverfinu valdi sjúkdómnum fremur en erfðafræðilegir þættir. Ekki er sagt um hvaða umhverfisþætti sé að tefla en samkvæmt öðrum rannsóknum hefur því verið haldið fram að hugsanlega sé um að ræða veirusmit eða skort á D-vítamíni.

Þess má geta, að á Íslandi er 57 ára gamall eineggja tvíburi með MS, en bróðir hans er ekki með sjúkdóminn.

Tilgátur um umhverfisvalda multiple sclerosis hafa skotið upp kollinum áður. Þessi nýjasta tilgáta hefur vakið allnokkra athygli, m.a. vegna síbatnandi erfðatækni og hefur allstór hópur vísindamanna lagt hönd á plóginn við þessa nýju rannsókn. Orsök MS er óþekkt, en fjölmargir hópar vísindamanna hafa í áranna rás sýnt fram á, að bæði erfðaþættir og umhverfisáhrif eigi þátt í sjúkdómnum – en hin mikilvægu einstöku smáatriði eru enn hulin myrkri.

Í skrifum um MS-sjúkdóminn er þess oft getið, að tíðni MS sé meiri eftir því sem norðar dregur á hnöttinn og eru þá oftast nefnd Skotland, Norðurlönd og Kanada.

Nýja niðurstaðan bendir til þess, að tiltekinn umhverfisþáttur sé sú meinsemd, sem hafi mest áhrif og sé “skúrkur harmleiksins”, eins og bandarísku vísindamennirnir segja í grein sinni í næsta tölublaði Nature. Niðurstaða þeirra byggir á mjög nákvæmri rannsókn á erfðaefni eineggja tvíbura, þar sem einungis annar er með MS-sjúkdóminn. Samkvæmt greininni kemur ekkert fram, sem bendir til þess, að erfðaþættir eða erfðatruflanir – þ.e. truflanir á því gangverki sem stjórnar starfsemi genanna – tengist MS-sjúkdómnum beint. Rannsókn vísindamannanna gekk út á það að leita uppi slík tengsl, en leitin bar ekki árangur.

Rétt er að skýrt komi fram, að bandarísku vísindamennirnir segja ekki, að erfðavísar hafi engin áhrif. Þvert á móti segja þeir það. Ef eineggja tvíburi er haldinn MS eru 30 af hundraði meiri líkur á því, að hinn tvíburinn fái sjúkdóminn, en aðrir þjóðfélagsþegnar. Og í tilviki systkina lítur dæmið þannig út, að sé eitt þeirra með MS eru 5% meiri líkur á að hin systkinin fái MS en önnur sem ekki eiga systkin með sjúkdóminn.

Til fróðleiks um umhverfisþáttinn í MS

Dagens Medicin - Risk för MS påverkas troligen starkt av miljöfaktorer

Dagens Nyheter - Mer stöd för att miljön påverkar ms

Nature – Útdráttur - Genome, epigenome and RNA sequences of monozygotic twins discordant for multiple sclerosis

MS-Network - The environmental factor

 

 - hh