Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Í MS Setrinu stendur nú yfir merkileg málverkasýning, EIN LEIÐ, sem opnuð var formlega á fimmtudaginn í s.l. viku, þ. 26. ágúst. Um er að ræða myndlistarsýningu Eddu Heiðrúnar Backman, leikkonu og leikstjóra, sem haldin er sjúkdómnum MND. Við fjölmenna opnun gaf Edda Heiðrún MS Setrinu, Sléttuvegi 5, stóra mynd eftir sig. Edda Heiðrún málar verk sín með munninum. Sýningin er opin virka daga kl. 14-16.
Edda Heiðrún getur ekki notað hendurnar við list sína. En það aftraði henni ekki frá því að stunda myndlist. Síðla árs 2008 ákvað hún að leggja stund á myndlist og núna málar hún af kappi með pensil í munni og hefur áhuginn og listfengið aukizt að mun.
Á sýningunni eru um 40 myndverk og eru mörg þeirra unnin í MS Setrinu, sem er þjónustumiðstöð MS sjúklinga. Önnur verk Eddu á sýningunni eru unnin á Endurhæfingardeild á Grensási og nokkur á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Edda Heiðrún er orðin þjóðkunn fyrir framtak sitt í þágu öryrkja á Íslandi og nú er verið, að frumkvæði hennar, að stofna deild við Myndlistarskóla Reykjavíkur fyrir fatlað fólk. Atbeininn að stofnun myndlistardeildarinnar er hennar. Deildin er hugsuð fyrir fatlað fólk svo það geti tjáð sig með ýmsum hætti. Einkum er deildin hugsuð fyrir þá sem ekki geta notað hendurnar eða eiga bágt með það.
Á sýningunni í MS Setrinu eru olíuverk, vatnslitamyndir, glerverk og leirdiskar, en listakonan hefur unnið að sýningunni í u.þ.b. eitt ár. Edda Heiðrún gerðist félagi í alþjóðlegum samtökum munn- og fótmálara, The Mouth and Foot Painters Association, á s.l. ári. Leiðbeinandi hennar og aðstoðarmaður við listmálunina er Derek K. Mundell.
Hluti af söluverði listaverka Eddu Heiðrúnar Backman á sýningunni í MS Setrinu mun renna til góðgerðarmála.
Sýningin er opin virka daga kl. 14-16. Við hvetjum fólk til að koma á þessa einstæðu sýningu munnmálaðra vatnslita-, olíu- og glerlistaverka, sem stendur til 26. október.