Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Ný rannsókn á yfir 2.300 MS-sjúklingum, sú fjölmennasta hingað til, gefur til kynna að svefntruflanir séu algengar og oft ógreint vandamál hjá MS-fólki. Svefntruflanirnar, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, tengjast þreytu sem er algengt MS-einkenni. Þessi rannsókn sem og niðurstöður annarra svefnrannsókna benda til þess að greining og meðhöndlun svefntruflana geti bætt lífsgæði MS-fólks verulega.
Um 70% þátttakenda sögðust upplifa að minnsta kosti eina svefntruflun. 38% voru með kæfisvefn, 32% með miðlungs til alvarlegt svefnleysi og 37% fundu fyrir fótaóeirð. Aðeins 4% þátttakenda höfðu fengið greiningu og meðferð á kæfisvefni, 11% vegna svefnleysis og 12% vegna fótaóeirðar. Um 30% þátttakenda upplifðu óeðlilega mikla syfju á daginn og yfir 60% þáttakenda tilkynntu um óeðlilega mikla þreytu sem tengdist svefntruflun.
Nauðsynlegt er að meðhöndla svefntruflanir því þær geta aukið á MS-þreytu sem er eitt af algengustu einkennum í MS. Þreyta getur haft veruleg áhrif á getu einstaklingsins í daglegu lífi og er ein af aðal orsökum þess að MS-fólk hverfur snemma af vinnumarkaði.
Hægt er að ráða bót á svefnleysi með einföldum aðgerðum og æfingum en ef það dugar ekki til eru til slakandi lyf eða svefnlyf.
Hér á MS-síðunni má finna góð ráð við svefntruflunum sem Aðalbjörg Albertsdóttir, fyrrum hjúkrunarfræðingur á tauga- og hæfingasviði Reykjalundar, setti saman.
Hér má lesa meira um svefntruflanir og MS á ensku (SÍÐA EKKI LENGUR TIL) og
hér má fá góð ráð og ábendingar um svefn og svefntruflanir á ensku frá National Sleep Foundation.
Unnið upp úr frétt frá National MS Society
Bergþóra Bergsdóttir