Ný rannsókn Ragnhildar Þóru Káradóttur, vísindamanns og doktors í lífefnafræði við háskólann í Cambridge á Englandi og félaga hennar, bendir til þess að skaddaðar taugafrumur sendi skilaboð til stofnfrumna og óski eftir lagfæringum á skemmdunum. Þessar niðurstöður vekja þá von að draga megi úr áhrifum taugasjúkdóma á borð við MS og Alzheimer. Talað var við Ragnhildi í Kastljósi RÚV 8. október sl.

Í fræðigrein sem birtist í Nature Communications 6. október sl. kynnir teymi Ragnhildar niðurstöður rannsókna sinna. Sýnt er fram á að taugafrumur „kalla á“ stofnfrumur og biðja þær um viðgerð á skemmdu myelíni, sem orsaka fötlun í MS. og stjórna þannig myndun á nýju myelíni. Myelín er verndandi fitulag (hvítt efni) sem umlykur taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða.

Hingað til hefur verið vitað að þessar „samræður“ á milli taugafrumna og frumna eiga sér stað mjög snemma í þróun heilans, þ.e. hjá börnum, en ekki eftir að einstaklingar komast á fullorðinsár eða þegar skemmdir hafa orðið.

Næsta skref er að skoða hvort möguleiki sé að nýta þessa vitneskju til meðferða sem miða að því að laga skemmdir. Ragnhildur á ekki von á því að þessi þekking lækni MS en geti hins vegar dregið úr fötlun í kjölfar skemmda/MS-kasta.

 

Sjá umfjöllun Kastljóss hér

Sjá frétt á ruv.is hér

Sjá grein í Nature Communications hér

 

 

Sjá eldri frétt um Ragnhildi Þóru hér