Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Samkvæmt nýrri útgáfu ‘Atlas of MS‘ eru nú 2,8 milljónir manna með MS-sjúkdóminn (Multiple Sclerosis) á heimsvísu og á Íslandi um 720 manns. ‘Atlas of MS‘ er víðtæk kortlagning á sjúkdómnum á alþjóðavísu.
Alþjóðasamtök MS-félaga ‘MSIF‘ hafa áætlað að a.m.k. 1 af hverjum 3.000 fullorðnum í heiminum sé með sjúkdóminn. Á Íslandi er tíðnin um sex sinnum hærri en heimsmeðaltalið og er áætlað að hér á landi séu um 720 manns með sjúkdóminn, en sjúkdómurinn hefur hærri tíðni á norðlægum slóðum.
Í nýjustu útgáfu ‘Atlas of MS‘ er sýnt fram á að fjöldi MS-greindra hefur aukist í öllum heimshlutum síðan 2013 eða um 22%. Þrátt fyrir að fjölgunina megi m.a. rekja til betri aðferða við talningu, betri upplýsinga um greiningartíðni og fólksfjölgun, er ekki hægt að útiloka að áhættan á að fá MS hafi aukist.
Á Íslandi greinast um 25 manns með sjúkdóminn á ári hverju, flestir á aldrinum 20-40 ára. Margir hafa upplifað MS-einkenni mörgum árum fyrir greiningu án þess að gera sér grein fyrir því fyrr en litið er til baka. Á Íslandi er MS um þrisvar sinnum algengara hjá konum en körlum en um orsök þess er ekki vitað.
Hægt er að fræðast nánar um rannsóknina á heimasíðu hennar www.atlasofms.org
Í þessu stutta kynningarmyndbandi getur þú séð andlitin á bak við tölurnar.
MS er taugasjúkdómur og hefur áhrif á heilann og mænuna. Einkennin eru mjög breytileg milli einstaklinga, en geta m.a. verið sjóntruflanir, náladofi, svimi og þreyta.
85% fá í upphafi greininguna MS í kastaformi þar sem sjúkdómurinn kemur í köstum með hlé á milli. 12% greinast í upphafi með síversnun í MS (frumkomin síversnun). Þau 3% sem eftir standa fá óþekkta sjúkdómsmynd í upphafi. MS gerir lífið óútreiknanlegt fyrir alla þá sem þjást af sjúkdómnum.
Í dag greinist einhver, einhvers staðar í heiminum á fimm mínútna fresti með MS sjúkdóminn.
Algengast er að MS greinist hjá fólki milli 20 og 40 ára en sjúkdómurinn getur komið fram á hvaða aldri sem er. Meðaltalsaldur greiningar á heimsvísu er 32 ár. Þar sem þetta er sá aldur þegar fólk getur verið að finna sér maka, eignast börn og byggja upp starfsframa, er mikilvægt að víðtækur stuðningur sé til taks til að gera fólki kleift að lifa því lífi sem það óskar sér.
En MS er ekki bara sjúkdómur fullorðinna. Þessi alþjóðlega rannsókn leiðir í ljós að það eru að minnsta kosti 30.000 börn og ungmenni undir 18 ára aldri með MS sjúkdóminn. Alþjóðasamtökin (MSIF) kalla eftir meiri vitund um að börn og ungmenni geti einnig þróað með sér MS og betri söfnun upplýsinga um tilvik MS hjá börnum.
Þrátt fyrir að þetta sé umfangsmesta rannsóknin á heimsvísu sem kortleggur og leggur mat á fjölda fólks með MS, þá eru enn stórar eyður í alþjóðlegri vitneskju. MSIF sendir ákall á ríkisstjórnir, heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og aðra til að bæta skráningu og söfnun gagna um MS. Aðeins á þann hátt verður raunveruleg byrði sjúkdómsins á alþjóðavísu sýnileg.
BÓ