MS félag Íslands tók í dag notkun nýja álmu við húsnæði félagsins, MS heimilið að Sléttuvegi 5 í Reykjavík. Nýja álman gjörbyltir aðstöðu til að veita þeim sem greinst hafa með MS sjúkdóminn nauðsynlega aðhlynningu og þjálfun. Þá opnast nýir möguleikar á að veita aukna þjónustu á sviði heilsuræktar, jógaiðkunar og félagsstarfsemi.

 MS-heimilið gegnir mikilvægu hlutverki sem miðstöð fyrir fólk með MS-sjúkdóminn og þangað sækja yfir 70 einstaklingar þjónustu í viku hverri. Nýja álman er 180 fermetrar að stærð og kostnaður við bygginguna nam tæpum 60 milljónum króna. Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur veitti MS félaginu 20 milljónir króna í styrk á síðasta ári fyrir byggingunni og var fyrsta skóflustungan tekin í mars 2007. Framkvæmdasjóður fatlaðra og Alþingi lögðu einnig til myndarleg framlög til byggingarinnar.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins, og Þóra Hallgrímsson, móðir Margrétar Björgólfsdóttur, vígðu nýju viðbygginguna að viðstöddum fjölda félagsmanna, aðstandenda og velunnara MS félags Íslands.

 Sigurbjörg sagði við opnun þessa þriðja áfanga heimilisins, að þetta væri gleðidagur í sögu félagsins og  sagði formaðurinn m.a., að “við byggingu þriðja áfangans, sem við opnum nú var það höfðinglegur styrkur úr Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur, sem réði úrslitum um að hægt var að hefjast handa.”

 Björgólfur Guðmundsson, formaður stjórnar Minningarsjóðs Margrétar Björgólfsdóttur, óskaði MS félaginu til hamingju með glæsilega aðstöðu og sagði það skipta öllu máli að fólk sem þekkti sjúkdóminn af eigin raun stæði í brúnni. „Öflugt grasrótarfélag eins og MS félagið nær ekki árangri vegna fjárframlaga, heldur vegna fólksins sem að því stendur. Að MS félaginu stendur öflugt fólk sem þekkir MS sjúkdóminn af eigin reynslu og þessi aðstaða varð til vegna elju og dugnaðar þessa fólks.” - h

Sjá frétt  Morgunblaðsins föstudag 25. janúar 2007.