Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins býður Berglindi Ólafsdóttur hjartanlega velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar á Sléttuveginum fyrir hönd félagsins og starfsmanna.
Berglind Ólafsdóttir hefur BS próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lýkur snemma á næsta ári MS prófi frá Háskóla Íslands í sömu fræðum, en með sérstakri áherzlu á stjórnun, stefnumótun. Berglind er 38 ára gömul, gift og tveggja barna móðir.
“Hlutverk framkvæmdastjórans verður að breyta MS félaginu úr áhugamannafélagi í öflugt hagsmunafélag”, sagði Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður, í samtali við MS-vefinn. “Ástæðan er að umfang starfseminnar hefur verið að aukast og við í stjórninni höfum talið, að með framkvæmdastjóra mætti efla starfsemi þess enn frekar og því nauðsynlegt, að stjórnin hafi mann til að hrinda málum í framkvæmd og þannig verði unnt að koma meiru í verk,” sagði Sigurbjörg.
Hingað til í 40 ára sögu MS félagsins hefur allt starf félagsins hvílt á formönnum félagsins og stjórnarmönnum þess. MS félagið er orðið stórt félag og í umræðum stjórnarinnar um framtíð félagsins og hvernig gera megi félagið enn öflugra og framtíðina heilladrjúga hafa stjórnarmenn hallazt að því að ráða sérstakan framkvæmdastjóra í hlutastarf, sem ekki er með MS. Einhugur var um að ganga faglega til verks og ráða starfsmann samkvæmt hæfileikum og menntun, og létta þannig stjórninni verklegu störfin og gefa henni betri kost á að sinna stefnumótun.
Eins og félagsmönnum er flestum kunnugt hefur félagið verið að yfirstíga erfiðan fjárhagslegan hjalla, sem var samfara stækkun húsnæðisins. “Á meðan á því stóð töldum við ekki raunhæft að fjölga starfsmönnum félagsins,” segir Sigurbjörg og bætir við: “Nú er þessi fjárhagslegi hjalli farsællega að baki og því töldum við lag að færa út kvíarnar hvað starfsmannamálin varðar.”
Hjá systurfélögum MS félagsins í Evrópu og víðar hefur meðvitað verið stefnt að því að efla félögin, breyta ásýnd þeirra og ráða sérmenntað fólk til starfa, “sem ekki væri með MS og við fylgjum þar reynslu annarra félaga hérlendis og erlendis í þeim efnum. Nú höfum við stigið þetta skref,” segir Sigurbjörg Ármannsdóttir. “Það var kominn tími til þess hér á landi.”
Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður, hefur í forystutíð sinni gegnt því starfi, sem allajafna er í verkahring sérstaklega ráðinna framkvæmdastjóra félaga á borð við MS félagið. Hún hefur í raun verið framkvæmdastjóri MS félagsins og staðið í argaþvargi hversdagsins. Munurinn er sá, að Sigurbjörg, sem er með MS, hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra sem sjálfboðaliði og ávallt verið launalaus!
Síðasta stórvirki hennar er nýliðin Lífsgæðaráðstefna Evrópusamtaka MS félaganna og MS félagsins, þar sem hún var í forystu á íslenzka endanum. Til dæmis þurfti Sigurbjörg að beita sér í ýmsum málum, sem voru á könnu sérstakra skipuleggjenda ráðstefnunnar og jafnframt að beita sannfæringarkrafti sínum til að hafa áhrif á hverjir yrðu fyrirlesarar og allt “niður í” að hafna fyrirhuguðum matseðli á Perlunni, sem ákveðinn var í Brussel, og breyta honum í glæsilegan og íslenzkan kvöldverð! - h