Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu tekur gildi 1. maí n.k. Hér má lesa um það helsta í nýju kerfi en einnig verður ÖBÍ með kynningarfund 27. apríl n.k., sjá hér.

 

Hámarksþak á greiðslur aldraðra og öryrkja

Aldraðir og öryrkjar munu að hámarki greiða 46.467 kr. á tólf mánaða tímabili fyrir þjónustuna og aldrei meira en 16.400 kr. á mánuði.

Lífeyrisþegi sem þegar hefur áunnið sér fullan afslátt 1 maí n.k., og þarf í hverjum mánuði að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem veitir honum rétt á hámarksafslætti, greiðir á komandi 12 mánaða tímabili að hámarki 32.800 kr. í stað 46.467 kr.

 

Hámarksþak á greiðslur barna

Hámarksgreiðslur barna í nýju kerfi verða þær sömu og hjá lífeyrisþegum. Börn með sama fjölskyldunúmer reiknast sem eitt barn í nýja kerfinu. Það gildir því einu hvort börn í sömu fjölskyldu eru eitt, tvö eða fleiri að hámarkskostnaður fjöllskyldu vegna heilbrigðisþjónustu eins eða fleiri barna verður aldrei meiri en 46.467 kr. á 12 mánaða tímabili.

Öll heilbrigðisþjónusta fyrir börn sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið er endurgjaldslaus ef hún er veitt á grundvelli tilvísunar frá heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi heimilislækni sem starfar samkvæmt samningi við SÍ.

 

Hámarksþak á greiðslur annarra

Aðrir notendur heilbrigðiskerfisins munu að hámarki greiða 69.700 kr. á tólf mánaða tímabili og aldrei meira en 24.600 kr. á mánuði.

Sá sem hefur áunnið sér fullan afslátt þegar nýja kerfið tekur gildi, og þarf í hverjum mánuði að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem veitir honum rétt á hámarksafslætti, greiðir á 12 mánaða tímabili að hámarki 49.200 kr. í stað 69.700 kr.

 

Gjöld fyrir heilsugæslu

Börn yngri en 18 ára greiða ekki komugjöld á heilsugæslu eða til sjálfstætt starfandi heimilislæknis á samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Heimsókn barns til sérfræðings er án endurgjalds ef barnið er með tilvísun. Komugjöld fólks á aldrinum 67 til 69 ára verða lækkuð úr 960 kr. í 600 kr. líkt og fyrir þá sem eru 70 ára og eldri. Almenn komugjöld verða óbreytt, 1.200 kr.

 

Innlögn á sjúkrahús

Innlögn á sjúkrahús verður endurgjaldslaus líkt og verið hefur. Sama máli gegnir um fæðingarþjónustu og mæðravernd.

 

 

Heimild: Velferðarráðuneytið, sjá hér.

 

Bergþóra Bergsdóttir