Föstudaginn 20. september næstkomandi eru 45 ár liðin frá stofnun MS-félags Íslands. Að því tilefni hefur MS-félagið opið hús á Sléttuveginum frá kl. 14 – 16 og býður félagsmönnum og velunnurum í afmæliskaffi.

Það var einmitt á föstudegi, 20. september 1968, sem MS-félag Íslands var stofnað. Helsti hvatamaður að stofnun þess var Kjartan R. Guðmundsson, yfirlæknir taugasjúkdómadeildar Landspítalans en hann var þá einn helsti sérfræðingur landsins í MS og meðhöndlaði flesta MS-sjúklinga.

Fyrsta stjórn félagsins var 3ja manna bráðabirgðastjórn og var formaður hennar Haukur Kristjánsson, yfirlæknir. Formennska hans stóð í 5 ár. Við tók Sverrir okkar Bergmann og var hann einnig formaður í 5 ár.

Í formannstíð þeirra var lögð áhersla á fjölgun félaga og fjáröflun og er ekki hægt að segja annað en að vel hafi tekist til. Uppistaða í sjóði félagsins frá fyrstu tíð var framlag Kjartans R. Guðmundssonar til minningar um eiginkonu hans, Ruth Guðmundsson. Stjórnir Hauks og Sverris voru stórhuga og aðeins þremur árum eftir stofnun félagsins afhenti félagið Sjálfsbjörgu peningaframlag til byggingar Dvalar- og vinnuheimilis Sjálfsbjargar með það fyrir augum að MS-sjúklingar ættu þar aðgang.

 

Á aðalfundi 1974 kynnti Kjartan R. Guðmundsson niðurstöður úr fyrstu heildarathugun á ástandi MS sjúklinga á Íslandi. Þær bentu til þess að verulegur hluti sjúklinga hefði sjúkdóminn í fremur góðkynjaðri mynd. Nokkrir voru þó illa farnir og höfðu sumir þeirra fengið aðstöðu við sitt hæfi hvað húsnæði og aðbúnað snerti, m.a. á fyrrnefndu Dvalar- og vinnuheimili Sjálfsbjargar. Mest kreppti skóinn hvað varðaði æfingaaðstöðu og tilfinnanlegur skortur var á sérhæfðum sjúkraþjálfurum. Í framhaldi af þessu stöðumati Kjartans kviknaði sú hugmynd að MS-félagið þyrfti að eignast húsnæði fyrir æfingastöð og geta rekið hana. Ári síðar afhenti félagið veglega peningagjöf til tækjakaupa vegna endurhæfingarstöðvar Sjálfsbjargar í Hátúni.

 

Á eftir Sverri Bergmann tók Gréta Morthens við formannskeflinu. Í tveggja ára formannstíð hennar má segja að grunnurinn hafi verið lagður að því öfluga almenna starfi sem einkennt hefur félagið æ síðan, með reglulegum samkomum sjúklinga og aðstandenda þeirra, ekki síst þar sem fólk hittist í þeim eina tilgangi að blanda geði og skemmta sér.

Í kjölfar Grétu Morthens var Margrét Guðnadóttir formaður í 2 ár og María Þorsteinsdóttir í 4 ár.

 

Í 13 ára formannstíð Gyðu Ólafsdóttur, sem tók við af Maríu Þorsteinsdóttur, komst mikill skriður á húsnæðismál MS-félagsins. Í apríl 1986 var dagvist fyrir MS-fólk opnuð í húsi að Álandi 13. Oddfellowstúkan Hallveig gaf fjármuni til starfseminnar og félagið Vinahjálp gaf öll heimilistæki og ýmis hjálpartæki til dagvistarinnar. Í fyrstu var pláss fyrir 15 einstaklinga, starfsmenn voru 3 og dagvistin opin tvo daga í viku. Ekki leið þó á löngu uns ráðist var í endurbætur á húsnæðinu og garðskáli byggður undir iðjuþálfun en sjúkraþjálfunin var í bílskúrnum. Síðar var farið að hafa opið alla virka daga vikunnar.

Starfsemin í Álandinu var alla tíð mjög blómleg og heimilisleg og talar MS-fólk, sem þar var, um þennan tíma með mikilli hlýju.

En betur má ef duga skal og á 25. afmælisári félagsins tók Gyða Ólafsdóttir fyrstu skóflustunguna að grunni Sléttuvegar 5. Tveimur árum síðar var nýja húsið vígt að viðstöddu fjölmenni. Síðan hefur í tvígang verið byggt við húsnæðið.

Á eftir Gyðu Ólafsdóttur tók Vilborg Traustadóttir við formennsku í 5 ár og síðar Sigurbjörg Ármannsdóttir í 6 ár. Núverandi formaður frá 2009 er Berglind Guðmundsdóttir.

 

Allir formenn félagsins hafa með formennsku sinni markað velgengni og framgang félagsins og verður þeim og stjórnum félagsins í gegnum tíðina seint fullþakkað mikið og óeigingjarnt starf þeirra í þágu okkar félagsmanna. Fjöldi félagsmanna er nú tæplega 800 en hátt í 500 eru taldir með MS-greiningu hér á landi.

 

 

Markmið MS-félags Íslands er að vinna að velferð þeirra sem haldnir eru MS-sjúkdómnum með því veita þeim og aðstandendum þeirra aðstoð og stuðla að öflugri félags- og fræðslustarfsemi.

Dagvistin, sem nú ber heitið MS Setur, nýtir húsnæðið að stórum hluta virka daga. Félagið er með skrifstofu í austurenda hússins þar sem einnig er opið alla virka daga en að auki hefur félagið allt húsið til afnota eftir kl. 16 sem er þá nýtt til ýmiskonar félagsstarfs og líkamsræktar.

Setrið, sem er hryggjarstykki MS-félagsins, er frá árinu 2000 sjálfseignarstofnun með eigin stjórn og að fullu aðskilin frá rekstri MS-félagsins. Setrið hefur rekstrarheimild fyrir 40 einstaklinga á dag en 75 einstaklingar koma í Setrið einn til fleiri daga í viku, þar af eru 52 MS-ingar. Ekki eru allir á Setrinu með MS-sjúkdóminn heldur er þar einnig fólk með aðra taugasjúkdóma svo sem Parkinson og MND en einnig fólk í endurhæfingu eftir heilablóðfall eða aðra sjúkdóma og slys. MS-fólk hefur alltaf forgang og fara ekki á biðlista. Í Setrinu er boðið upp á hjúkrun og umönnun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, vinnustofu og félagsstarf, félagsráðgjöf og aðra þjónustu.

MS-félag Íslands eflist með hverju ári og starfsemin verður æ umfangsmeiri. Einstök gjafmildi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja gerir félaginu kleift að standa undir ýmis konar þjónustu við félagsmenn sína, svo sem námskeiðshaldi, félagsráðgjöf, landsbyggðafundum, jógatímum, líkamsþjálfun og öflugu félagsstarfi auk þess að gefa út rit MS-félags Íslands, MeginStoð, tvisvar á ári.

Í tilefni 45 ára afmælisins réðst félagið í gerð þriðju fræðslumyndarinnar um stöðu MS-fólks og ber hún heitið MS: Taugasjúkdómur unga fólksins. Myndin verður frumsýnd í sjónvarpi RÚV kl. 20:10 annað kvöld, þriðjudaginn 17. september á eftir fréttum og Kastljósi. Sjá einnig frétt hér.

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir

 

Heimildir:

·         Páll Kristinn Pálsson, /?PageID=129

·         MS Setrið í 27 ár, grein eftir Þuríði Rögnu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra MS Setursins í 2. tbl. MeginStoðar 2013