„Á opna húsinu á laugardaginn verða í boði sívinsælir munir sem margir koma ár eftir ár og kaupa hjá okkur, eins og kerti og glervara, en einnig ýmsar nýjungar eins og orkuarmbönd, hálsmen úr hreindýrahorni og hlutir úr keramik og við“ segja þær Anna María og Kristbjörg í MS Setrinu. Laugardaginn 19. nóvember milli kl. 13 og 16 verður hið árlega opna hús í MS Setrinu, þar sem fólki gefst kostur á að kaupa fallega handgerða muni á viðráðanlegu verði og styrkja gott málefni. Einnig verða til sölu vöfflur og súkkulaði á vægu verði.

Vinnustofan gegnir veigamiklu hlutverki í endurhæfingar- og félagsstarfi MS Setursins. Þar er mjög góð aðstaða til að vinna að ýmsu handverki undir styrkri leiðsögn Önnu Maríu Harðardóttur listmeðferðarfræðings, Kristbjargar Valgeirsdóttur iðjuþjálfa og Nönnu Guðmundsdóttur. Þekktasta söluvaran er líklega grjónapokarnir góðu sem fastagestir hafa vart undan að framleiða en munirnir á opna húsinu eru svo fjölbreyttir að ekki er hægt að telja þá upp hér. Hér fylgja nokkrar myndir sem sýna einungis brot af úrvalinu.

     
     

„Heimsókn á opna húsið er orðið að árlegum viðburði hjá mörgum og mikil ásókn er í munina. Við hvetjum sem flesta til að koma við og kaupa góðar jólagjafir á góðu verði“ segja þær stöllur Anna María og Kristbjörg. Úrvalið er mjög mikið og allur ágóði rennur beint til félagsstarfsins.