Ótrúlegt hvað við erum látin bíða eftir lyfinu"
*Lyfið Tysabri sem hefur gefið góða raun við MS-sjúkdómnum var skráð hér á landi í ágúst *Lyfið er ekki enn komið í notkun en fjármagn skortir
Með MS Svana Kjartansdóttir (t.v.) og Jóhanna Kr. Teitsdóttir bíða eftir að geta notað lyfið Tysabri.
Með MS Svana Kjartansdóttir (t.v.) og Jóhanna Kr. Teitsdóttir bíða eftir að geta notað lyfið Tysabri.
Bréf Svana Kjartansdóttir og fleira fólk með MS-sjúkdóminn hafa sent frá sér bréf vegna málsins og óska viðbragða ráðamanna við því.Björn Zoëga
[ Smelltu til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is "VIÐ sem bíðum eftir lyfinu erum öll í afturför.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
"VIÐ sem bíðum eftir lyfinu erum öll í afturför. Mér finnst ótrúlegt hvað við erum látin bíða," segir Svana Kjartansdóttir, en hún er með MS-sjúkdóminn (Multiple Sclerosis), sem hefur áhrif á miðtaugakerfið. Svana og fjórir aðrir sem eru haldnir sjúkdómnum hafa í meira en ár beðið eftir að lyfið Tysabri fáist afgreitt hér. Hún segir lyfið það besta sem hægt sé að gefa sjúklingum í dag, það stöðvi eða hægi á einkennum sjúkdómsins og þau gangi jafnvel til baka að hluta til.
Svana segist hafa fengið þær upplýsingar að lyfið sé komið til landsins og búið að mennta hjúkrunarfræðing sem eigi að gefa sjúklingum lyfið, en því er sprautað í æð á nokkurra vikna fresti.
Hún segir að lyfið hafi verið notað við MS-sjúkdómnum í nokkur ár. Það sé m.a. gefið MS-sjúklingum í nágrannalöndunum. Um tvö ár séu síðan fyrst var rætt um að gefa það fólki með sjúkdóminn hér á landi. Fyrir áramót hafi fólki verið sagt að lyfið væri væntanlegt og það yrði gefið sjúklingum hér upp úr áramótum. "Svo átti að byrja í vor, þá í haust en við bíðum enn," segir Svana.
"Blæðir ekki nóg úr okkur"
Reynt hafi verið fá upplýsingar um stöðu málsins, m.a. með því að ræða við heilbrigðisnefnd, þingmenn, ráðherra og yfirstjórn LSH, en engin svör fáist. "Það blæðir líklega ekki nógu mikið úr okkur. Það sést ekki hvernig okkur líður," segir Svana, en hún bendir á að þegar fólk óttist að hrörna svo að það missi t.d. sjón geti það ekki beðið í lengri tíma eftir viðeigandi meðferð.
Sjálf er Svana í hjólastól en kveðst enn geta notað hendurnar og farið sjálf á snyrtingu. "Ég get ekki farið sjálf í bað eða eldað en ég er enn heima hjá mér og fyrir þjóðfélagið er það mjög gott að þurfa ekki að vera með hóp af fólki á rándýrum hjúkrunarheimilum," segir hún. Hún bætir við að fólk með MS-sjúkdóminn vilji geta verið heima með fjölskyldu sinni sem lengst. Svana segir að hún hafi í fyrra hætt á svonefndu bremsulyfi, sem hún tók áður. "Mér var sagt það að ég yrði að vera hætt á því í að minnsta kosti sex mánuði áður en ég byrjaði [á Tysabri]." Hún vilji ekki byrja á öðru lyfi núna heldur fá besta lyfið sem er í boði.
Minnkar heilabólgu sjúklinga
Haukur Hjaltason, taugalæknir á taugadeild Landspítala, segir Tysabri vera fyrirbyggjandi lyf við MS-köstum. Lyfið minnki heilabólgu sem verði í MS-kasti og hemji bólgur.
Haukur segir að lyfið hafi komið fram árið 2003. Fljótlega hafi komið í ljós hættuleg aukaverkun sem orsakast hafi af svonefndri JC-veiru. Nokkrir sjúklingar hafi dáið af völdum aukaverkunarinnar og þá hafi verið hætt að nota lyfið um tíma. "Vorið 2006 var aftur farið að nota lyfið. Í fyrrasumar var farið að nota það í Evrópu," segir hann. Notkun lyfsins hafi gengið mjög vel síðan. "Það eru engin frekari tilvik af þessari hættulegu aukaverkun. Tysabri virðist hafa mun betri áhrif heldur en þau lyf sem hafa verið notuð hingað til við að fækka eða hemja þau köst sem MS-sjúklingar fá," segir hann. Sjúklingar sem áður hafa fengið eitt kast á ári fái eitt kast á um fimm ára fresti, taki þeir hið nýja lyf.
Hjörtur segir að á Landspítala sé allt tilbúið til þess að hefja meðferð með notkun Tysabri, en lyfið hafi verið skráð í ágúst. "Það er allt til reiðu hér á taugadeild," segir Haukur. Eins og sakir standa strandi málin á peningamálum spítalans. Á dögunum hafi verið haldinn fundur með fulltrúum taugadeildar og yfirmönnum og fleirum sem hafa með lyfjamál að gera, ásamt yfirmönnum spítalans. Niðurstaðan af þeim fundi hafi verið sú að ekki væru til peningar til að setja í meðferðina.
Hægt að hefja notkun í haust
Gerðar voru svonefndar klínískar leiðbeiningar vegna lyfsins hjá sjúkrahúsinu. Haukur segir að þær hafi verið tilbúnar fyrir nokkrum vikum. "Það hefði verið hægt að hefja þessa meðferð í byrjun hausts ef það hefði verið komið grænt ljós frá öllum aðilum," segir hann. Klínísku leiðbeiningarnar hafi þá reyndar ekki verið skrifaðar, en það hefði ekki átt að reynast fyrirstaða.


"Það sem vantar er fjármagn"
"ÞAÐ sem vantar er fjármagn. Það kostar að lágmarki 100 milljónir, lauslega reiknað, að gefa sjúklingum þetta fyrsta árið," segir Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, um lyfið Tysabri. Hann segir að gera megi ráð fyrir því að um 40-45 sjúklingar myndu nota lyfið fyrsta árið og þeim myndi svo fara fjölgandi.
Kostar 2,7 milljónir á ári
Hann segir að lyfið hafi verið til í nokkurn tíma og bendir á hinar alvarlegu aukaverkanir sem fram hafi komið fljótlega eftir að notkun þess hófst erlendis. "Það gerði að verkum að menn fóru varlega og athuguðu lyfið upp á nýtt," segir Björn. Lyfið virðist gott við MS-sjúkdóminum en svo virðist sem fara þurfi mjög varlega, því miklar hættur séu vegna aukaverkana. Hann telur málið hafa verið í eðlilegum farvegi fram til þessa.
Björn bendir á að Tysabri sé svokallað s-merkt lyf. Það þýðir að spítalinn greiðir fyrir lyfið, en ekki notandi þess. Kostnaður við notkun lyfsins á ári sé um 2,7 milljónir króna á hvern sjúkling.
"Reglur spítalans, sem eru settar með öryggi sjúklingsins að leiðarljósi, eru að þegar nýtt s-merkt lyf kemur eru gerðar klínískar leiðbeiningar," segir hann. Það þýði að farið sé í gegnum notkunarferil lyfsins, hvaða aukaverkanir séu fyrir hendi, hvenær eigi að hefja gjöf lyfsins og hvenær hætta. Þá sé þar farið nákvæmlega yfir notkun lyfsins.
Björn segir að taugalæknar hafi skrifað þessar leiðbeiningar. Á fundi með deild lyfjamála á spítalanum á dögunum hafi menn sammælst um að leiðbeiningarnar væru næstum tilbúnar. Viðbótarupplýsingar hafi vantað og þeim séu taugalæknar að safna.
"Þegar þær eru komnar eru klínísku leiðbeiningarnar tilbúnar. Þá vantar ekkert nema peningana," segir Björn.
Í samningi sem gerður hafi verið fyrir nokkrum árum milli Tryggingastofnunar, heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans, um notkun s-merktra lyfja, segi að heilbrigðisráðuneytið tryggi fjármögnun þegar ný lyf sem eru merkt þannig komi hingað. Undanfarið hafi slíkt fjármagn ekki fengist þegar s-merkt lyf hafi komið.
10 s-merkt lyf í notkun ár hvert
Björn segir að vöxtur í s-merktum lyfjum hafi verið mun meiri en í öðrum lyfjaflokkum. "Það er komið mikið af mjög dýrum, sterkum lyfjum," segir hann. Innan við 10 ný s-merkt lyf fari í notkun ár hvert.
Björn segir að um leið og nýjustu upplýsingar frá taugalæknunum berist muni yfirstjórn LSH hafa samband við heilbrigðisráðuneytið og kynna málið. Hingað til hafi peningar verið teknar af rekstrarfé spítalans til að fjármagna ný, dýr lyf, en um sé að ræða pólitískt úrlausnarefni. Fáist fjármagn yrði hægt að taka lyfið í notkun innan fárra mánaða.





Miðvikudaginn 28. nóvember, 2007 - Innlendar fréttir

Dýrustu lyfin á 6-7 milljónir
2,2 milljarðar í s-merkt lyf á árinu

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is FLEST dýrustu lyfin sem notuð eru vegna meðferðar við ýmsum sjúkdómum hér á landi eru svonefnd s-merkt lyf. Þau eru eingöngu notuð á sjúkrahúsum.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
FLEST dýrustu lyfin sem notuð eru vegna meðferðar við ýmsum sjúkdómum hér á landi eru svonefnd s-merkt lyf. Þau eru eingöngu notuð á sjúkrahúsum.
Fram kom í Morgunblaðinu í gær að lyfið Tysabri, sem gagnast við MS og skráð var hér í ágúst sl., stendur sjúklingum ekki enn til boða. Ársskammtur af lyfinu kostar um 2,7 milljónir króna.
Mörg s-merktu lyfjanna eru nýleg og segir Sigurður B. Þorsteinsson, yfirlæknir deildar lyfjamála á LSH, að hvað verð snerti sé verið "að tala um verðmiða sem við höfum ekki séð hvað varðar lyf".
Að hans sögn kosta dýrustu lyfin sem gefin eru við krabbameini og búið er að heimila á bilinu 6-7 milljónir króna á ári á hvern sjúkling. Þó nokkur lyf kosti 3-4 milljónir á ári.
Sigurður bendir á að fjöldi sjúklinga sem taka hin dýru lyf sé mismikill. Sjúklingahópar kunna að vera 1-2 á ári upp í tugi manna.
Sigurður segir mörg þessara lyfja vera svonefnd líftæknilyf. Þau eru búin til með erfðafræðilegum aðferðum. Þessi lyf séu notuð við ýmsum illkynja sjúkdómum á borð við krabbamein. Slík lyf eru einnig notuð við bólgusjúkdómum eins og gigtarsjúkdómum, MS, augnsjúkdómum og sjálfsofnæmissjúkdómum.
Sigurður segir það mjög viðkvæmt mat þegar skoðað sé hvort taka eigi tiltekið dýrt lyf í notkun. Spyrja þurfi hversu árangur megi "vera mikill til þess að verðskulda verðmiðann sem getur leikið á nokkuð mörgum milljónum fyrir ársmeðferð". Oft sé um að ræða sjúkdóma þar sem meðferð standi árum saman. Þeir sem komi að lyfjamálum á LSH hafi fyrst og fremst hagsmuni sjúklinga í huga. Enn sem komið er hafi engu nýju lyfi verið hafnað vegna kostnaðar.
Kostnaður fram úr heimildum
Á þessu ári voru ætlaðar 1.986 milljónir króna til kaupa á s-merktum lyfjum á Landspítala. Í október var talan komin í 1.780 milljónir, að sögn Rannveigar Einarsdóttur, lyfjafræðings á deild lyfjamála hjá Landspítala. Hún segir að kostnaðurinn verði líklega á bilinu 2,1-2,2 milljarðar. Í fyrra var hann 1.382 milljónir króna. Rannveig segir að taka verði með í reikninginn að lyfjaverð hækki almennt um 12-15% milli ára í löndunum í kringum okkur.