Alþjóðadagur MS verður haldinn hátíðlegur með sumarhátíð í MS-húsinu að Sléttuvegi 5, miðvikudaginn 31. maí frá kl. 16 til 18.

Félagsmenn og fjölskyldur þeirra eru hjartanlega velkomin.

Alþjóðadeginum er ætlað að vekja athygli samfélagsins á MS-sjúkdómnum og þeim áskorunum sem fólk með MS og aðstandendur þeirra geta mætt.

 

Lifað með MS er yfirskrift alþjóðadagsins í ár  

Almennt getur fólk með MS lifað góðu og sjálfstæðu lífi, þökk sé nýjum lyfjum og betri greiningu. Um þriðjungur fólks með MS hafa væg eða engin einkenni sjúkdómsins eftir mörg ár með sjúkdóminn og þrír af hverjum fjórum lifa virku og sjálfstæðu lífi í mörg ár eftir greiningu.

 

Dagskrá sumarhátíðarinnar

Kl. 16:00 Björg Ásta Þórðardóttir, formaður MS-félagsins, býður gesti velkomna. 

Kl. 16:30 Sirkus Íslands mætir með glens, grín og frábær sirkusbrögð. 

Kl. 17:15 Páll Óskar, hinn frábæri söngvari, syngur eins og honum er einum lagið.  

 

Boðið verður upp á andlitsmálun á meðan á hátíðinni stendur.

 

Ráfari verður á svæðinu frá kl. 16:00 til 16:30 en ráfarar fara um og grínast í gestum og gangandi með einum eða öðrum hætti, t.d. á stultum eða smáhjóli.

 

Að sjálfsögðu verður hoppukastali fyrir börnin eins og fyrri ár en nú verður nýr og enn flottari hoppukastali en áður -  Gula höllin frá Exton.

 

ÖBÍ gefur höfuðbuff og félagsmenn fá í hendurnar möppu með nýjum fræðslubæklingum MS-félagsins.

 

Að venju verður boðið upp á veitingar og gotterí.

Atlantsolía verður með pylsubílinn sinn og býður gestum upp á pylsur og drykki, Emmessís býður upp á Partí-lurkinn og Nói Siríus gefur nammi. 

 

Alþjóðadagur MS

 

BB