Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Fimmtudaginn 15. júlí hlaut MS-félagið styrk úr Pokasjóði, sem gerir félaginu kleift að bjóða skjólstæðingum félagsins upp á sálfræðiaðstoð. Styrkurinn gerir félaginu kleift að greiða niður sálfræðiþjónustu við MS-sjúklinga. Alls voru veittir styrkir úr Pokasjóði að upphæð 50 milljónir króna til 55 verkefna.
Forsaga málsins er sú, að MS-félagið hefur lengi haft hug á því að geta boðið skjólstæðingum sínum upp á sálfræðiþjónustu. Margir skjólstæðinga félagsins þurfa sárlega á slíkri þjónustu að halda, einkum í tengslum við það að vera greindir með MS-sjúkdóminn og einnig þegar þeir þurfa að takast á við breytingar í lífi sínu vegna fötlunar og/eða breyttra aðstæðna.
Í greinargerð MS-félagsins til Pokasjóðs er gerð grein fyrir nauðsyn á sálfræðilegri aðstoð við MS-sjúklinga, ekki sízt nýgreinda, og aðra þætti sem gjarnan gleymast í tengslum við sjúkdóminn.
Andleg líðan vill gleymast
Í greinargerðinni segir m.a.:
“Andlegt jafnvægi skiptir miklu máli varðandi það hvernig tekst til að vinna úr þeim breytingum sem verða á lífinu í kjölfar sjúkdóma. Þó er tilhneiging til að huga ekki nægilega vel að andlegri líðan, einkum í upphafi þegar athygli allra beinist fyrst og fremst að því að sinna líkamlegum einkennum. Veikindi geta einnig haft margbreytileg áhrif á fjölskyldu viðkomandi. Hlutverk og samskipti geta breyst og framtíðaráform orðið að engu. Erfitt getur reynst að glíma við slíkt andstreymi upp á eigin spýtur. Þá getur sálfræðilegur stuðningur skipt sköpum. Sálfræðileg aðstoð miðar að því að bæta líðan, hjálpa honum að ná sátt við breytta stöðu, efla aðlögunarhæfni og auka sjálfstraust.”
Vakin er athygli á því, að samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi taki sjúkratryggingakerfið engan þátt í greiðslu kostnaðar við slíka þjónustu, nema fyrir börn. Stéttarfélög taka oft á tíðum þátt í þessum kostnaði en því fer fjarri að allir skjólstæðingar MS-félagsins eigi rétt hjá sjóðum.
Gagnlegar upplýsingar
Fullgildir félagar í MS-félaginu sem eru með sjúkdóminn munu geta fengið niðurgreiðslu á tímum hjá sálfræðingi. Fyrirkomulagið er þannig að panta þarf tíma hjá Margréti Sigurðardóttur, félagsráðgjafa á skrifstofu MS-félagsins. Hún mun meta þörf fólks fyrir sálfræðiaðstoð og gefa út tilvísun. Hver tilvísun gildir að jafnaði fyrir 5 tíma meðferð hjá sálfræðingi.
Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins sagði við MS-vefinn eftir afhendingu styrkjarins: “Við munum ekki vera með sérstakan sálfræðing í starfi hjá okkur heldur geta styrkþegar sjálfir valið sér sálfræðing úti í bæ og farið til hans þar.” Berglind bætti við, að það væri orðið talsvert langt síðan boðið var upp á aðstoð sálfræðings á vegum félagsins, ”en við höfum orðið vör við það að full þörf er á að veita þessa þjónustu. Árangur verkefnisins verður svo metin og framhald ákveðið. Frekari fjármögnun mun að sjálfsögðu ráða miklu í því efni,” sagði Berglind um leið og hún þakkaði rausn og velvilja Pokasjóðs.