Í janúar-hefti The Lancet Neurology voru birtar jákvæðar niðurstöður fasa-2 rannsóknar á flogaveikilyfinu phenytoin við sjóntaugabólgu sem margir einstaklingar með MS fá og er algengt byrjunareinkenni á MS-sjúkdómnum. Lyfið virðist hafa taugaverndandi áhrif á sjóntaugina og getur þar af leiðandi mögulega einnig gagnast við að hægja á fötlun í MS. Viðameiri rannsókn er framundan.

 

Forsaga rannsóknarinnar

Sjóntaugin flytur sjónræn skilaboð á milli augna og heila.Sjóntaugabólga, sem hefur næstum alltaf áhrif á annað augað (í einu), getur skaðað sjón einstaklings vegna taugaskemmda í sjóntauginni og á taugaþráðum hennar í sjónhimnunni. Flestir endurheimta sjónina að nýju í kjölfar sjóntaugabólgu þegar þeir fá hana í fyrsta (og eina) sinn.

Talið er að taugaþræðir (taugasímar) skemmist eða brotni niður hjá einstaklingum með MS m.a. vegna þess að til taugaþráðanna streymir of mikið magn natríums frá  nærliggjandi vefjum sem afleiðing af bólgum sem eru einkennandi fyrir MS-sjúkdóminn (MS-örum eða MS-sárum). Það leiðir til umframframleiðslu af kalsíum sem veldur niðurbroti taugaþráðanna.

Vísindamenn við háskólasjúkrahús í London og Sheffield ákváðu að gera frekari rannsóknir á lyfinu phenytoin, sem notað er til að meðhöndla flogaveiki, vegna þess að það hindrar flæði natríums til taugaþráða (taugasíma) og getur haft taugaverndandi áhrif.

 

Rannsóknarhópurinn

Rannsóknin átti að meta hvort lyfið gæti hjálpað til við að vernda frá skemmdum sjónhimnuna (retina), sem er ljósnæmt lag taugaþráða frá sjóntauginni, aftast í auganu. Um var að ræða svo kallaða fasa-2 rannsókn (sjá útskýringu hér neðar).

Í henni tóku upphaflega 86 einstaklingar þátt sem voru að upplifa fyrstu einkenni bráða sjóntaugabólgu en 81 lauk rannsókninni. Þátttakendur voru á aldrinum 18-60 ára, allir með MS-greiningu. Þeim var skipt í þrjá hópa þar sem tveir hópar (39 mannns) fengu daglega töflulyfið phenytoin í mismunandi skammtastærðum og þriðji hópurinn (42 manns) fékk lyfleysu í 3 mánuði. Þykkt sjónhimnunar var mæld í byrjun rannsóknarinnar og svo aftur að 6 mánuðum liðnum.

 

Niðurstaða

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að þeir sem tóku lyfið phenytoin fengu 30% minni skemmdir á sjónhimnuna samanborið við þá sem fengu lyfleysu. Þátttakendur þoldu meðferðina almennt vel en þó fékk einn einstaklingur í lyfjahópnum alvarleg útbrot sem rekja má til lyfsins.

Niðurstöður benda til þess að lyfið phenytoin hafi taugaverndandi áhrif við sjóntaugabólgu og því er nauðsynlegt að kanna frekar með klínískri fasa-3 rannsókn áhrif lyfsins á sjóntaugabólgu og versnun (fötlun) í MS sem orsakast af taugaskaða í miðtaugakerfinu.

 

 

Heimildir hér og hér.

Sjá einnig umfjöllun hér.

 

 

 

 

Hvað er sjóntaugabólga?

  Sjóntaugin (optic nerves) flytur sjónræn skilaboð á milli augna og heila.

  Orsök sjóntaugabólgu er bólgublettamyndum í sjóntaugum og hefur sjóntaugabólgan næstum alltaf áhrif á eitt auga í einu.

  Sjóntaugabólga byrjar sem sár verkur aftan við annað augað. Sjónin minnkar þá á nokkrum dögum eða vikum.

  Litaskyn minnkar eða hverfur og það sama á við um styrkleika birtu. Einnig getur viðkomandi séð óskýrt, svona eins og horft sé í gegnum matt gler. Þokusýn lýsir ástandinu vel, því að það er eins og sjónin verði þokukennd og að þokan hverfi ekki þó augun séu nudduð eða augum blikkað.

  Eftir 1-2 vikur er blettamyndunin að jafnaði yfirstaðin og bólgan fer að minnka og við það dregur úr einkennum og sjónin fer að verða eðlileg aftur. Eftir 1-2 mánuði er sjónin orðin eðlileg aftur.

  Sumir fá þó varanleg einkenni með blindum bletti í sjónsviði eða með breyttu litaskyni.

 

 

Hvað er átt við þegar talað er um fasa-1, -2 og -3 rannsóknir?

Þetta lýsir mismunandi stigum vísindarannsókna.

Ef vísindamaður telur sig hafa fundið eitthvað á rannsóknarstofu sem gæti haft áhrif á miðtaugakerfið og þar með möguleg jákvæð áhrif á MS eru fyrst gerðar tilraunir á dýrum. Þetta er gert til að kanna hvort lyfið sé mögulega hættulegt.

Næst er gerð lítil öryggisrannsókn á litlum hópi fólks sem ekki er með MS.

Að því loknu eru MS-sjúklingar teknir inn í litla rannsókn, sem miðar að því að skoða aukaverkanir og öryggi meðferðar. Sú rannsókn er það sem kallast fasa-1 rannsókn.

Ef fasa-1 rannsókn gefur góða raun er gerð fasa-2 rannsókn sem er stærri og miðar að því að kanna verkun og gagnsemi lyfsins. Í fasa-2 rannsókn er ekki endilega verið að horfa á klíníska mælikvarða heldur er MRI-myndgreining notuð eða prótein skoðuð í blóði eða mænuvökva.

Ef niðurstaða fasa-2 rannsóknar er jákvæð er gerð fasa-3 rannsókn. Það er stór, afmarkandi, klínísk rannsókn sem leiðir til markaðssetningar lyfs ef niðurstöður rannsóknar benda til þess að ávinningur af notkun þess er meiri en áhættan.

Þetta tekur allt sinn tíma, allt að 10-12 ár. Ef hins vegar er talið að lyf sem þegar er í notkun fyrir aðra sjúkdóma gæti gagnast í MS-sjúkdómnum (eins og hér er um að ræða með gamalreynt flogaveikilyf) þá tekur ferlið mun skemmri tíma, fer jafnvel beint í fasa-2 eða fasa-3 rannsókn.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir