Starfsmenn á Tauga- og hæfingasviði Reykjalundar, með Smára Pálsson taugasálfræðing í fararbroddi, eru að fara af stað með rannsókn á þjálfun á minni og einbeitingu hjá fólki með MS, en rannsóknir hafa sýnt að markviss hugarþjálfun skili árangri rétt eins og líkamsþjálfun.

Hér á eftir fer lýsing á rannsókninni ásamt beiðni um þátttöku. Við hvetjjum sem flesta til að taka þátt!

 

Rannsókn á þjálfun á minni og einbeitingu hjá fólki með MS

Samkvæmt alþjóðasamtökum um MS-sjúkdóminn finnur meira en helmingur fólks með MS fyrir einhverri vitrænni skerðingu. Undir vitræna skerðingu fellur margskonar vandi og má þar nefna skert minni, athygli og einbeiting, skertur hugrænn hraði, vandi tengdur máli og tali og skert geta til að leysa þrautir. Alþjóðasamtökin um MS mæla með greiningu á vitrænni skerðingu hjá fólki með MS og ef um skerðingu er að ræða mæla þau með einhverri tegund af vitrænni þjálfun.

Rannsóknir benda til að með vitrænni þjálfun í tölvu sé hægt að bæta minni, athygli og einbeitingu hjá almenningi og ýmsum sjúklingahópum. Undanfarin ár hefur umræðan svo aukist um áhrif vitrænnar þjálfunar á fólk með MS. Til eru nokkrar rannsóknir sem sýna að þjálfun skilar sjúklingum með MS bættri getu á þessum sviðum auk bættra lífsgæða. Ennþá er þó fjölmörgum spurningum ósvarað eins og hversu mikil þarf þjálfunin að vera, hverskonar þjálfun er árangursríkust og eins hvaða vitrænu þætti þjálfunin virkar best á.

Undirrituð starfa öll á Tauga- og hæfingarsviði Reykjalundar og hafa áhuga á að meta áhrif vitrænnar þjálfunar á minni og einbeitingu fólks með MS. Slíkt hefur ekki verið gert markvisst hérlendis og er einnig lítt kannað erlendis. Við óskum eftir sem flestum þátttakendum og stefnum að því að þeir verði ekki færri en 60. Reiknað er með að þátttakendur stundi vitræna þjálfun heima í tölvu í 6 vikur. Allir eru metnir í upphafi rannsóknar og aftur að þjálfunartíma liðnum. Óskað er eftir þátttakendum sem hafa áhuga á að efla og bæta minni og einbeitingu. Þjálfun fer fram í tölvu og því æskilegt að viðkomandi hafi aðgang að nettengdri tölvu. Einnig er nauðsynlegt að sjúkdómsgreining sé staðfest af taugasjúkdómalækni.

Ávinningur þinn af þátttöku í rannsókninni gæti verið aukið minni, einbeiting og andlegt úthald en rannsóknin gengur út á að athuga þessa þætti. Þátttaka í rannsókninni er þér að kostnaðarlausu en um er að ræða þjálfunarforrit á netinu sem alla jafna kostar að nýta sér. Niðurstöður verða svo kynntar fyrir félagsmönnum MS-félagsins. Engin kvöð fylgir þátttöku í rannsókninni og viljir þú hætta er þér frjálst að gera það hvenær sem er án þess að geta til um ástæðu.

Þeir sem hafa áhuga að taka þátt í þessari rannsókn eru hvattir til að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst eða símleiðis sem fyrst, en síðasta lagi 30. september. Tekið skal fram að þeir sem hafa samband eru með því aðeins að lýsa yfir áhuga sínum á því að fá frekari upplýsingar, ekki að skuldbinda sig til þátttöku.

Smári Pálsson taugasálfræðingur á Reykjalundi
Ábyrgðarmaður rannsóknar
smarip@reykjalundur.is  
Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS
270 Mosfellsbær
Sími 585 2000

 Smári Pálsson  Ólöf H Bjarnadóttir  Sigurður Viðar
 Smári Pálsson taugasálfræðingur smarip@reykjalundur.is Ólöf H. Bjarnadóttir tauga- og endurhæfingarlæknir olofb@reykjalundur.is  Sigurður Viðar sálfræðingur sigurdurv@reykjalundur.is

     

---

Hér er hægt að nálgast kynningu Smára frá kynningarfundi okkar þann 30. ágúst s.l.