Fimmtudaginn 8. janúar kl. 10:30 byrjar nýtt 10 vikna reiðnámskeið, þ.e. þjálfun á hestbaki. Reiðnámskeið hafa verið í boði á árinu sem nú er að líða og þátttakendur eru mjög ánægðir. Námskeiðið styrkir bæði líkama og sál því fyrir utan góðan félagsskap við hesta og menn, þá hjálpa hreyfingar hestsins til við að efla jafnvægi og styrkja bak- og lærvöðva sem fljótir eru að rýrna hjá okkur MS-fólki eftir því sem hægir á okkur.

Námskeiðið er haldið í samstafi við Fræðslunefnd fatlaðra hjá Hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbæ. Reiðhöllin er í Mosfellsbæ við Varmárbakka, sjá staðsetningu hér.

Námskeiðið er einu sinni í viku, á fimmtudögum frá 8. janúar fram til 12. mars.

Þátttakendum verður skipt í 2 eða 3 „holl“ þar sem hvert holl er í um 30 mínútur með hestinum, þar af um 20 mínútur á baki. Um 10 mínútur fara í að fara á bak og af baki. Sjálfboðaliðar á vegum Fræðslunefndar fatlaðra hjálpa þátttakendum á og af baki. Einn aðstoðarmaður teymir hestinn og einn til tveir til viðbótar ganga með honum, allt eftir getu hvers og eins þátttakanda. Jafnvel óvanasta fólk finnur sig öruggt á baki. Hestarnir eru einstaklega gæfir og vanir að umgangast óvant fólk. Á meðan hluti hópsins er á baki njóta hinir félagsskapar hvors annars – sem ekki er síður skemmtilegt að sögn.

10 vikna námskeið kostar 30.000 kr. fyrir félagsmenn. Námskeiðið er dýrt í krónum talið en þegar litið er til þess hvað námskeiðið er langt þá kostar hver tími 3.000 kr. Innifalið í því er allt að þrír starfsmenn á hvern þátttakanda, hestur á fóðrum, öryggisbelti, reiðtygi og hjálmur til láns og öll aðstaða til að taka á móti fötluðum einstaklingum. Ósjaldan er boðið upp á kaffi fyrir þá sem bíða.

Til að koma á móts við hátt þátttökugjald býður MS-félagið þátttakendum að skipta greiðslum á þrjá mánuði, þ.e. 10.000 kr. á mánuði.

 

Sjá má fyrri umfjallanir um reiðnámskeiðin hér, hér og hér.

Sjá myndir sem teknar voru á fyrri reiðnámskeiðum hér.

 

Skráning og upplýsingar í síma 861 4587 eða með tölvupósti á bergthora@msfelag.is fyrir 5. janúar n.k.

Takmarkaður fjöldi kemst á námskeiðið þannig að betra er að skrá sig fyrr en síðar.

 

 Mynd tekin í desember 2014 - Myndina tók Ingunn Bjarnadóttir

 

 

BB