“Maður nærist á því að vera hérna, samkenndinni sem er hér og er svo mikilvæg,” sagði Þuríður Sigurðardóttir í ávarpi, sem hún flutti á 25 ára afmæli MS Setursins mánudaginn 4. apríl 2011. Í tilefni þess var efnt til fjölsóttrar samkomu í húsakynnum MS-félagsins og MS Setursins. Haldnar voru ræður, viðurkenningar veittar og “Drengjakór” Sjóvár söng nokkur lög.

Þuríður og Sigurbjörg Ármannsdóttir greindu í ræðum sínum frá starfi og sögu MS Setursins, sem hófst árið 1986. Þá voru starfsmenn 3 og skjólstæðingarnir 15. Í máli Þuríðar kom fram, að nú störfuðu alls 16 manns í MS Setrinu, fimmfalt fleiri en í upphafi fyrir 25 árum. Helmingur starfsmannanna hefur starfað við MS Setrið í meira en 10 ár. Skjólstæðingum Setursins hefur fjölgað að sama skapi. Þuríður og Sigurbjörg tóku sérstaklega fram, til marks um mikilvægi starfsins, að lífsgæði sjúklinga ykjust til muna vegna þeirrar endurhæfingar, sem boðið er upp á í MS Setrinu.

Sigurbjörg sagði, að 25 ára afmæli dagvistar og endurhæfingarþjónustu MS félagsins væri merkur áfangi og til marks um hversu miklu lítið félag hefði áorkað á skömmum tíma og aukið lífsgæði MS fólks á ýmsan hátt.

Með nýjustu viðbyggingunni frá 2008 getur félagið enn betur sinnt því hlutverki að veita MS-fólki nauðsynlega þjónustu. Þá hafa einnig opnast möguleikar á að veita aukna þjónustu, t.d. á sviði jógaiðkunar, heilsuræktar og almennrar félagsstarfsemi, en slík þjónusta er ekki síður nauðsynleg til að stuðla að bættum lífsgæðum þeirra sem lifa með MS-sjúkdómnum.

Endurhæfingin eykur lífsgæði
Þjónustan er af ýmsu tæi. Helztu svið starfseminnar innan MS Setursins eru: hjúkrun/umönnun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, félagsstarf/vinnustofa, eldhús, félagsráðgjöf og taugalæknir. Endurhæfingin felst bæði í líkamlegum æfingum og iðju og listiðnaði ýmiss konar.

Þverfaglegt teymi starfsfólks MS Seturs er mikilvægt. Um það segir Þuríður: “Með þverfaglegri teymisvinnu í MS Setrinu verður eftirfylgni skjólstæðinga markvissari og með fyrirbyggjandi aðgerðum má oft koma í veg fyrir ótímabærar sjúkrahúsinnlagnir”.

Í MS Setrið koma 75 einstaklingar á viku, þar af eru 70% með MS sjúkdóminn og
síðan einstaklingar með fatlanir vegna annara sjúkdóma eða slysa, meðalaldur er um 52 ár.
Flestir skjólstæðingar koma í framhaldi innlagna af bráða-og endurhæfingadeildum, en einnig frá heilsugæslulæknum og heimahjúkrun.

“Okkar sterkasti bakhjarl er MS félagið, sem á húsnæðið og flestan búnað,” sagði Þuríður. “Þess vegna hefur tekizt svona vel til að reka þetta”, sagði hún.

Árangurinn oft komið okkur á óvart
Berglind Guðmundsdóttir
, formaður MS félagsins sagði, að hún væri stolt af MS Setrinu. “Mikilvægi þjálfunar er ómetanlegt og hún eykur lífsgæði fólks,” sagði formaðurinn í ávarpi sínu. Berglind sagði jafnframt, að starfsfólk MS Setursins hefði sýnt samstarfsfólki sínu hjá félaginu hverju væri hægt að fá áorkað – “og oft hefur árangurinn komið okkur á óvart,” sagði hún.

Það kom skýrt fram í máli ræðumanna hversu mikilvægir bakhjarlar MS félagsins væru. Stuðningur þeirra væri ómetanlegur. Í afmælinu var einhverjum dyggustu bakhjörlum MS félagsins þakkaður stuðningurinn sérstaklega. Nú nýlega fékk MS félagið enn eina gjöfina frá Svölunum, að þessu sinni nuddbekk. Þá gaf Oddfellow stúkan Baldur sjúkragöngubretti. Tveir fulltrúar Svalanna tóku í tilefni tímamótanna við þakkarskjali.

Þá kallaði Þuríður Sigurðardóttir fram þrjár dugnaðarkonur, sem í áranna rás hafa unnið öflugt starf í þágu MS sjúklinga frá upphafi og þakkaði þeim sérstaklega. Þetta voru Elín Þorkelsdóttir, Margrét Ólafsdóttir og Sigurbjörg Ármannsdóttir.

Dagskránni lauk svo með öflugum söng “drengjakórs” Sjóvár, sem reyndar er skipaður fullorðnum og raddmiklum hópi 13 karla, sem sungu nokkur lög, m.a. lagasyrpu eftir þá bræður heitna Jón Múla og Jónas Árnasyni, brot úr vetrarkór einnar frægustu óperu Verdi auk lags eftir Beethoven, undir stjórn Jóns Karls Einarssonar. Á píanó lék undir Helgi Hannesson.

Í máli sínu rifjaði Þuríður lauslega upp sögu MS Setursins. Sigurbjörg Ármannsdóttir gerði þessari sögu nákvæmari skil og rifjaði upp, að árið 1985 hefði MS félagið fengið skrifstofu undir starfsemina, hugmyndir hefðu vaknað um að koma á fót dagvist og 4. apríl 1986 hefði dagvistar- og endurhæfingarstarf MS félagsins hafizt í 160 ferm. leiguhúsnæði í Álandi.

Setur þekkingar, þjálfunar og þjónustu
Fram til ársins 1995 var starfsemin í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar en í dag hefur MS Setrið verið rekið í 16 ár í húsnæði í eigu MS félagsins. Það var árið 1993 sem MS félag Íslands réðst í byggingu eigin húsnæðis og 2 árum síðar eða 15. júní 1995 flutti dagvistin starfsemi sína að Sléttuvegi 5.

Árið 2000 var dagvistin gerð að sjálfseignarstofnun, nafni breytt í Dagvist og endurhæfingamiðstöð MS sjúklinga (d&e MS). Á sama tíma var 150 ferm. viðbygging tekin í notkun. Árið 2007 var svo tekin fyrsta skóflustungan að enn nýrri viðbyggingu, sem reis hratt, en hún var vígð í janúar 2008. Hún er 180 ferm. að stærð. Með henni hefur aðstaða endurhæfingarstarfsins og ýmissar annarrar starfsemi á vegum MS félagsins vaxið fiskur um hrygg.

Í fyrra var efnt til samkeppni um sérlegt nafn á d&e MS og varð orðið Setur fyrir valinu. Nafngiftin MS Setrið hefur verið furðufljót að festa sig í sessi.

Þuríður Sigurðardóttir segir um starfsemi MS Setursins: “Auk aðstoðar við athafnir daglegs lífs, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og næringarríkra máltíða skiptir félagslegi þátturinn miklu máli. Að hafa til einhvers að vakna, að hitta annað fólk og upplifa nýja hluti, skapar samkennd sem er okkur öllum svo mikilvæg. Markmið starfsemi MS Setursins er að styrkja og viðhalda færni skjólstæðinga, og draga úr hindrunum. Með hvatningu og stuðningi gerum við tilveru þeirra bærilegri, ekki eingöngu tilveru einstaklingsins heldur og einnig þeirra nánustu fjölskyldu og samstarfsaðila.”

MS Setrið er miðstöð þekkingar, þjálfunar og þjónustu fyrir allt MS fólk.

Á heimasíðu MS félagsins er að finna upplýsingar um MS Setrið, starfsmenn þess og netföng. Og er MS fólk hvatt til að hafa samband og kynna sér hvað er í boði í MS Setrinu.
                                   

halldorjr@centrum.is

Ávarp Berglindar Guðmundsdóttur, formanns

Ávarp Sigurbjargar Ármannsdóttur