Uppfærð 23.11. - Næsta mánudag, þ. 24. nóvember kl. 16:30 verður efnt til fjöldafundar á Ingólfstorgi á vegum heildarsamtaka þeirra þegna samfélagsins, sem sízt mega við skerðingu á kjörum sínum, þ.e.a.s. þeirra sem þurfa að reiða sig á lífeyri og örorkubætur sér til framfæris. Að fundinum standa Öryrkjabandalag Íslands, Félag eldri borgara, Þroskahjálp og BSRB. Samstöðufundurinn beinist að því að standa vörð um hin stóru, sameiginlegu hagsmunamál þessara hópa. MS-félagið leggur jafnframt áherzlu á, að stjórnvöld svíki ekki MS-sjúklinga um að þeir fá lyfið Tysabri, sem þess þurfa. Það hefur gjörbreytt lífi þeirra 30 manna, sem hafa fengið það.

Í fréttatilkynningu um samstöðufundinn, sem send var út í dag segir:

“Tilefni fundarins er óvissuástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar eftir fall íslensku bankanna og hrapandi gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólgu og óáran fyrir landsmenn. Þetta ástand leggst þungt á sálarlíf og pyngju þjóðarinnar og ekki síst á þá hópa sem mega síst við skerðingu á kjörum sínum, þ.e.a.s. þeirra sem þurfa að reiða sig á lífeyri sér til framfæris.
Verjum velferðina!

 Félagsmönnum þeirra samtaka sem standa að fundinum er nóg boðið og spyrja hverjir eiga að borga brúsann fyrir óráðsíu peningamannanna? Eru það þeir sem minnst hafa nú þegar? Hvernig fer með lífeyrissparnað landsmanna og annan sparnað sem margir hafa lagt fyrir alla ævi? Við krefjumst svara við þessum og fleiri spurningum. En í stað svara eru jafnvel þeir opinberu aðilar, sem eiga að bera ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar, nú komnir í hár saman og kenna hvorir öðrum um hvernig fór, en enginn játar ábyrgð á einu eða neinu

                                                                                          Björg Eva Erlendsdóttir, fundarstjóri

Björg Eva Erlendsdóttir, fundarstjóri                              

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ

Ræðumenn á fundinum verða Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar, Árni Stefán Jónsson varaformaður BSRB og formaður SFR, Halldór Sævar Guðbergsson formaður ÖBÍ og Margrét Margeirsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Fundarstjóri verður Björg Eva Erlendsdóttir. Í lok fundarins verður borin upp ályktun til samþykktar. 
                                                                                          

                                        

Fundarboðendur hvetja fólk, hvar sem það í flokki stendur eða hvaða félagasamtökum eða stéttarfélögum það tilheyrir, að mæta á fundinn til að sýna samstöðu þjóðarinnar og heimta lýðræðisleg vinnubrögð og spillinguna burt! Verjum velferðina!   

                                             Halldór Sævar Guðbergsson, ÖBÍ

Vegna sérstöðu MS-sjúklinga einkennast slagorð MS-félagsins vegna fjöldafundarins fremur af sókn en vörn vegna svikinna loforða stjórnvalda um að linaðar verði þjáningar MS-sjúklinga í samræmi við loforð Landspítalans um að 50 manns fengju Tysabri á árinu 2008. Nú hafa aðeins 60% af 50 manna hópnum fengið lyfið, sem reynzt hefur svo vel og fullkomin óvissa ríkir um framhaldið.

Þess vegna spyrjum við á þessum miklu óvissutímum:

Hvers vegna fáum við ekki lyfið, sem linar þjáningar okkar?


Lyfið Tysabri hefur breytt lífi MS sjúklinga. Afhverju bíða tugir MS sjúklinga eftir meðferð?

MS sjúklingar verða vinnufærir vegna lyfsins Tysabri. Er það ekki í þágu samfélagsins? 

Hvers vegna er Tysabrilyfinu skammtað úr hnefa? 

Hvers vegna fá MS-sjúklingar ekki lyfið sem virkar?

Það er lögbrot að skammta “töfralyfið” Tysabri. 

Vilja stjórnvöld bera ábyrgð á þjáningum MS sjúklinga, sem ekki hafa fengið Tysabri-lyfið? 

Er þjáning MS-sjúklinga ómerkilegri en þjáning annarra sjúklinga?

Er það íslenzku samfélagi sæmandi að veita MS-sjúklingum ekki beztu meðferð?

Óvissa er versti óvinur MS-sjúklinga! -
hh


Sendið bréf