Sativex er úðalyf sem unnið er úr kannabis en þar sem ávanaefni kannabis hefur verið einangrað frá. Lyfið er því ekki ávanabindandi vegna virka efnisins. Lyfið er almennt ætlað fyrir MS-sjúklinga sem eru slæmir af spasma og verkjum. Ekki er þó um MS-lyf að ræða í þeim skilningi að það hafi áhrif á framgang sjúkdómsins.
Markaðsleyfi var útgefið 19. júlí sl. í samræmi við heimild EMA, Lyfjastofnunar Evrópu, um markaðsleyfi lyfja í Evrópu. Sativex hefur þó ekki verið markaðssett á Íslandi enn sem komið er og ekki er víst hvort og hvenær af því verður.
Áður en hægt er að ávísa lyfinu hér á landi þarf lyfjagreiðslunefnd að samþykkja leyfilegt hámarksverð á lyfinu.
Lyfið verður eftirritunarskylt þar sem það inniheldur ávana- og fíkniefni, þó ávanaefni kannabis hafi verið einangrað frá því og það því ekki ávanabindandi. Lyfið verður eingöngu ávísað af taugalæknum og er lyfseðilsskylt.
Sativex hefur ekki verið kynnt fyrir taugadeild LSH, skv. Jónínu Hallsdóttur, MS-hjúkrunarfræðingi og því er að svo stöddu ekki hægt að gefa frekari upplýsingar um hvenær lyfið verður tekið í notkun eða hverjir muni fá það.
BB