Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Pistill af vefsíðu danska MS-félagsins í lauslegri þýðingu:
Það er alveg eðlilegt að hjartsláttur þinn aukist og þú stressist upp þegar þú ákveður að segja aðilanum sem þú ert að hitta frá því að þú hafir MS. Verður þér hafnað og sagt upp eða skipta fréttirnar viðkomandi engu máli?
Jens W. Pedersen, stefnumótaráðgjafi og rithöfundur, hefur skoðun á því hvenær og afhverju þú ættir að segja frá og hvernig þú getur orðið betri í því.
Margir finna fyrir taugaveiklun, kvíða og áhyggjum áður en þeir fara á stefnumót.
En það fylgir leiknum, útskýrir Jens W. Pedersen. Ef þú værir ekki með MS, þá væri eitthvað annað sem gerði þig kvíðna eða kvíðinn. En það breytir því ekki, að auðvitað getur verið erfitt að segja frá veikindum sínum þegar maður er að hitta einhvern/einhverja.
Í nýrri rannsókn (danska MS-félagsins) svara 16% svarenda því til að þeir segi ekki frá því að þeir hafi MS þegar þeir fara á stefnumót, því þeir séu hræddir um að það hræði mögulegan maka í burtu.
En þú ættir ekki að hræðast þetta, meinar Jens W. Pedersen.
Spáðu frekar í hvort sá/sú sem þú ert að hitta sé þannig persóna sem muni þola það og umbera að þú sért með sjúkdóm, auk þess að vera hrifin/hrifinn af þér, þ.e. hvort manneskjan sé þess virði að kynnast og eyða tíma og orku í.
Með því að segja frá MS-inu hræðir þú mögulega einhverja eða einhverjar í burtu, en er það ekki betra en að enda í sambandi sem ætti sér hvort sem er ekki framtíð?
Þú munt nefnilega þurfa að segja frá MS-inu á einhverjum tímapunkti og þá er betra að gera það fyrr en síðar.
Það er betra fyrir ykkur bæði, segir Jens W. Pedersen.
Ef þú segir ekki frá MS-inu fyrr en þið eruð búin að hittast í einhvern tíma, þá eru meiri líkur á því að þú hafir byggt upp tillfinningar gagnvart viðkomandi og verðir fyrir meiri sárindum ef hann/hún kýs að þið hættið að hittast.
Eins gæti viðkomandi fundist sem þú hafir svikið hann/hana með því að leyna veikindum þínum svo lengi og það er virkilega slæm byrjun á sambandi.
En er virkilega alltaf nauðsynlegt að segja þeim sem maður er að hitta frá einhverju svo persónulegu sem sjúkdómi?
Það veltur auðvitað allt á því hversu alvarlega þú tekur stefnumótinu, segir Jens W. Pedersen.
Auðvitað er þér það erfitt, ef sá eða sú sem þú ert að hitta segir þér upp í kjölfar þess að þú segir frá sjúkdómi þínum. Að áliti stefnumótaráðgjafans, Jens W. Pedersen, gæti því verið góð hugmynd að þú æfir þig, bæði í því að fara á stefnumót og eins í því að segja frá MS-inu.
Ef þú átt í vandræðum með að takast á við þær tilfinningar sem fylgja stefnumótum þínum, gæti verið ráð að þú farir á stefnumót bara til gamans, meinar hann og segir frá ungri konu sem hann aðstoðaði...
...Hún skrifaðist á við stráka á netinu. Þegar einhver þeirra bauð henni út, samþykkti hún alltaf að hitta viðkomandi en svo þegar dagurinn rann upp brást henni kjarkur og hún hætti við. Og hún gerði þetta aftur og aftur.
Svo kom að því að strákur, sem henni þótti ekki mikið koma til, bauð henni út. Hún ákvað að hitta hann vegna þess að hún var fyrirfram viss um að það gæti aldrei orðið neitt alvarlegt á milli þeirra og að það skipti því engu máli þótt stefnumótið myndi klúðrast. Það fór samt svo að þau urðu kærustupar. En það er þó ekki málið hér....
Málið er, að ef þú nærð að hætta að velta þér fyrirfram upp úr þessu alvarlega og því sem veldur þér áhyggjum við það að fara á stefnumót, þá getur þú frekar prófað þig áfram og öðlast reynslu í því sem þér finnst erfitt. Og hvað um það þó stefnumótið klikki, ef þú hefur hvort sem er ekki of miklar væntingar til þess, spyr Jens W. Pedersen að lokum.
Heimild og lausleg þýðing úr dönsku, sjá hér
Mynd: Creative Common leyfi
Bergþóra Bergsdóttir