Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Að undirlagi MS-félagana í Kanada, Ítalíu, Hollandi, Bretlandi og Bandaríkjunum kom MSIF (alþjóðasamtök MS-félaga) á fót samstarfsverkefninu „International Progressive MS Collborative“ (IPMSC) með það að leiðarljósi að beina sjónum að rannsóknum á meðferðum við síversnunarform MS. Í febrúar sl. komu saman til ráðstefnu í Mílanó 170 fræði- og vísindamenn víðs vegar að úr heiminum til að taka stöðu mála og huga að framtíðinni.
Prófessor Alan Thomson, formaður lyfja- og vísindanefndar MSIF og einn ráðstefnustjóra, sagði við þetta tækifæri að þátttakendur ráðstefnunar væru nú að takast á við einn af mest krefjandi þáttum rannsókna á MS- að skilja og meðhöndla síversnunarform MS.
Hingað til hefur lítið verið um rannsóknir á síversnun í MS þar sem langflestar rannsóknir hafa beinst að MS í kastaformi, þar sem auðveldara er að mæla árangur rannsókna á sjúkdómseinkenni.
Ráðstefnan þótti takast mjög vel. Leiðandi sérfræðingar á ýmsum sviðum rannsókna skilgreindu stöðuna eins og hún er í dag, skiptust á reynslu sinni og skoðunum með það sameiginlega markmið að finna sem fyrst meðferð sem gagnast mun MS-fólki í síversnun.
Næsta skref er að vinna úr niðurstöðum fundarins þannig að hægt verði að þróa og setja upp alþjóðlega aðgerðaráætlun sem vinna má eftir.
Lesa má á ensku um niðurstöðu ráðstefnunar hér.
Það er mikið gleðiefni að svo margir vísindamenn með mismunandi og yfirgripsmikla þekkingu á MS-sjúkdómnum skuli vinna saman á heimsvísu að svona mikilvægu verkefni fyrir okkur MS-fólk. Augljóst er að breið samstaða og samvinna gefur mun betri raun heldur en þegar verið er að vinna í smáhópum, þó ekki megi vanþakka slíka vinnu. Á það bæði við um þekkingu, söfnun fjármuna og nýtingu þeirra.
Bergþóra Bergsdóttir