Núna styttist í skil á skattskýrslunni 2011. Skilafrestur er til 23. marz, en Ríkisskattstjóri gefur fólki kost á að sækja um almennan skilafrest í nokkra daga eða lengst til 29. marz. Einfaldast er að ganga frá skattframtalinu á vef RSK, www.skattur.is og senda það rafrænt til skattyfirvalda. Fólk er hvatt til að kynna sér lögbundna afslætti.

Á skattur.is getur þú sinnt nánast öllum samskiptum við skattyfirvöld s.s. talið fram, fengið afrit, skoðað álagningarseðil og skilað virðisaukaskatti og staðgreiðslu. Þeir sem kjósa að telja fram á pappír upp á gamla móðinn geta, að sjálfsögðu gert það. Ef þú vilt fá framtalið sent heim til þín á pappír getur þú óskað eftir því . Framtal verður þá sent á lögheimilið þitt. Ef þú hefur nettengda tölvu getur þú prentað sjálf/ur út framtalseyðublöðin heima hjá þér og hafizt strax handa.

Til þess að komast inn á þjónustusvæði fyrir einstaklinga þarf sérstakan veflykil, sem flestir fengu þegar þeir byrjuðu að telja fram rafrænt. En hafir þú glatað veflykli þínum má óska eftir nýjum veflykli á skattur.is og fá hann sendan í heimabanka eða póstlagðan á lögheimili þitt.

Á vefnum skattur.is er sérstök leiðbeiningarsíða vegna rafrænna skattskila. Smellið hér. Þá eru upplýsingar mjög aðgengilegar á svokölluðu “hjálparborði” RSK. Þetta er S.O.S.-síðan, spurt og svarað, smellið hér.

Varðandi framtalsaðstoð býður RSK upp á hana endurgjaldslaust. Hægt er að leita til Ríkisskattstjóra á Laugavegi 166 til að fá framtalsaðstoð. Opið er frá 9.30-15-30. Veitt verður aðstoð í síma 442-1414 alla virka daga frá kl. 9:30 til 15:30. Dagana 23., 28. og 29. mars verður símaþjónustan í boði til kl. 19:00. Auðvelt er að kalla fram skýringar við einstaka kafla eða reiti í vefframtali.

MS-fólki er sérstaklega bent á þá afslætti af sköttum, sem lög gera ráð fyrir. M.a. ber að hafa í huga afslætti vegna veikinda, sjúkra- og spítalakostnaðar, læknisheimsókna, lyfjakostnaðar og annarra slíkra atriða, sem snerta öryrkja sérstaklega. Hér skal vísað í 65. grein laga nr. 90/2003, þar sem um þetta er fjallað.

Rétt er samt að leggja áherzlu á að fólk, sem leitar sér aðstoðar hjá skattyfirvöldum við framtalsgerðina spyrji sérstaklega um afsláttarákvæði laga því skattalögin eru bæði flókin og taka talsvert örum breytingum, ekki sízt um þessar mundir.

Leiðbeiningarrit skattyfirvalda – sjá einkum bls. 27 og 29. 

Eyðublað – Umsókn um lækkun

halldorjr@centrum.is