Nú í byrjun mánaðarins lauk 6 vikna reiðnámskeiði með pompi og prakt en það námskeið fylgdi á eftir 10 vikna reiðnámskeiði sem hófst í lok janúar. Þátttakendur og leiðbeinendur eru sammála um að mjög vel hafi tekist til og verður boðið upp á nýtt námskeið í október n.k. Þó langt sé þangað til eru áhugasamir hvattir til að skrá sig fyrir 1. júlí á skrifstofu MS-félagsins eða með tölvupósti svo hægt sé að kanna áhuga og skipuleggja námskeiðstímann en takmarkaður fjöldi plássa er í boði.

 

Námskeiðin eru í samstarfi við Fræðslunefnd fatlaðra hjá Hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbæ. Góð aðkoma er að Reiðhöllinni í Mosfellsbæ, þar sem námskeiðin eru haldin, og góð aðstaða til að komast á bak hestunum.

Námskeiðin okkar eru í umsjá þrautþjálfaðs reiðkennara, Berglindar Ingu Árnadóttur, sem hefur með sér einvala lið aðstoðarmanna sem eru félagsmenn Hestamannafélagsins Harðar og sjálfboðaliðar, og Fríðu Halldórsdóttur sem þekkir vel til MS-sjúkdómsins.

Eingöngu eru notaðir rólegir og gæfir hestar og er teymt undir hverjum og einum. Þátttakendur eru með hjálm og öryggisbelti. Einn til þrír leiðbeinendur eða sjálfboðaliðar ganga með hverjum hesti, allt eftir getu og þörfum þátttakanda. Að öllu jöfnu fer þjálfunin fram inni í Reiðhöllinni en ef aðstæður eru góðar og þátttakandi treystir sér til er farið út. Það er þó kalt í Reiðhöllinni og því nauðsynlegt að mæta í hlýjum fatnaði.

 

 

Námskeiðið næstkomandi vetur verður einu sinni í viku, klukkutíma í senn. Hámarksþátttökufjöldi er 8 og er gert ráð fyrir að 4 verði á hestbaki í einu, aðrir horfi á á meðan. Í reiðhöllinni eru góðir bekkir til að sitja á. 

Ekki þarf annað en góðan hlýjan fatnað þar sem innifalið í námskeiðsgjaldinu er allur nauðsynlegur útbúnaður, svo sem hjálmur, reiðtygi og hnakkur. Námskeiðið verður í 10 vikur og kostar 30.000 kr. fyrir félagsmenn.

Áhugasamir þurfa að skrá sig fyrir 1. júlí á skrifstofu MS-félagsins í síma 568 8620 á milli kl. 10 og 15 eða með því að senda tölvupóst á msfelag@msfelag.is. Haft verður samband við alla sem skrá sig þegar nær dregur.

 

 

Sjá umfjöllun um reiðnámskeiðin fyrir fatlaða í umfjöllun mbl.is hér og fésbókarsíðu Fræðslunefndarinnar hér (Fræðslunefnd fatlaðra hjá Herði). Sjá má staðsetningu Reiðhallarinnar hér.

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir