Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Skyntruflanir geta komið fram í hvaða hluta líkamans sem er. Þær geta tekið yfir lítið eða stórt svæði, verið t.d. eingöngu í andliti eða á handleggjum, tekið yfir aðra hvora hlið líkamans eða verið um allan líkamann. Skyntruflanirnar geta verið til staðar hvort sem húð er snert eða ekki. Skynjunin getur verið minnkuð, aukin, breytt eða öðruvísi en eðlilegt er. Skyntruflanir geta verið vægar, frá dofa sem vart truflar viðkomandi, upp í illþolanlegan verk.
Skyntruflanir geta verið margvíslegar; náladofi, tilfinningaleysi í húð, ofurnæmni, breyting á hitaskynjun í húð, svo sem brunatilfinning (eins og húðsvæðið sé yfir gasloga) eða kuldi (innri kuldi, beinverkir, hand- og fótakuldi), kláði/ofsakláði, verkur eða þyngsli fyrir brjósti, rafstraumur og almenn óþægindi í húð (til dæmis eins og haft sé gúmmíband um úlnlið, ökkla eða brjóstkassa).
Skynjun frá húð, við það eitt að strjúka hendi eftir húðinni, getur brenglast og gefið röng skilaboð. Einnig getur hita- og kuldaskyn truflast. Gæta þarf varúðar hvort sem skrúfað er frá vatni eða tekið um heita potta, diska, bolla eða annað viðlíka. Sama á við um kælipoka sem settir eru á húð.
Tilfinningin frá húðinni getur einnig verið óþægileg, jafnvel sársaukafull, við það eitt að fara í bað eða fá sand á milli tánna. Sumir upplifa þá tilfinningu að vera eins og með sandkorn í skónum þegar þeir ganga eða sem að þeir fletti blöðum með vettlinga á höndum þegar tilfinning í fingrum er lítil eða brengluð.
Í upphafi sjúkdómsferlis geta skyntruflanir verið hluti af eða eitt einkenna í kasti sem hverfa þegar kastið gengur yfir. Síðar í sjúkdómsferlinu geta þær orðið meira viðvarandi og þá átt það til að vera breytilegar í styrk og eðli.
Eins og fyrr segir geta skyntruflanir verið tímabundnar í lengri eða skemmri tíma eða verið viðvarandi. Á meðan þær eru þolanlegar og hafa ekki mikil áhrif á daglegt líf er lyfjameðferð sjaldnast reynd. Sumum dugar að breyta venjum, eins og að hafa fyrir reglu að taka aldrei á pottum nema með ofnhönskum, aðrir lina óþægindi, eins og náladofa, með því að setja volga grjónapoka yfir dofna svæðið og enn aðrir nota íhugun, slökun eða öndunaræfingar til að útiloka einkennin.
Hinsvegar getur lyfjameðferð með taugaverkjalyfjum reynst nauðsynleg ef skyntruflanirnar hafa þeim mun meiri áhrif á líðan einstaklingsins og daglegt líf.
Í einhverjum tilfellum virðist því miður fátt annað til ráða en að bíta á jaxlinn og vona að óþægindin gangi fljótt yfir.
Önnur ráð við skyntruflunum:
Mynd hér