Í kvöld klukkan 20 verður áhugaverður fundur um “Heilbrigðismál í kreppu” og hvað sé framundan á Grand Hótel að Sigtúni 38 í Reykjavík. Á fundinum verða núverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherrar landsins, þeir Ögmundur Jónasson og Guðlaugur Þór Þórðarson, ásamt Matthíasi Halldórssyni, landlækni. Þetta er fyrsti fundurinn af sex í aðdraganda komandi alþingiskosninga. Fyrir fundinum standa Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp.

Þessi fyrsti fundur verður helgaður heilbrigðismálum og verður megináherzla lögð á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, þak á læknis- og lyfjakostnað og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Fundurinn er í fundaröðinni “Verjum velferðina”.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherraBúast má við heitum umræðum um þessi viðkvæmu efni, sem verulegur ágreiningur er um í þjóðfélaginu þessa dagana og mánuði vegna kreppuástandsins. Búast má við að t.d. hugmyndir um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu verði mjög skiptar.

Að loknum framsöguerindum Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, forvera hans og Matthíasar Halldórsonar, landlæknis, verða pallborðsumræður. Auk þremenninganna taka þátt í pallborði fulltrúar stjórnmálaflokkanna, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar.

Fundurinn er öllum opinn. Táknmálstúlkar verða á fundinum. Gert er ráð fyrir, að fundurinn standi í tvær klukkustundir, frá 20 til 22.

Á næstu vikum verða fundir helgaðir öðrum málaflokkum, s.s. menntamálum, félags- og tryggingamálum, mannréttindamálum o.fl. - h

Sendið bréf með hugmyndum og athugasemdum