Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Miðvikudaginn 25. október næstkomandi verður haldinn stefnumótunarfundur MS-félagsins. Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum og verður haldinn í félagsheimili Sjálfsbjargar Hátúni 12, frá kl. 9:00-13:00.
Með hröðum breytingum í lyfjamálum og betri greiningartækjum hafa framtíðarhorfur MS greindra bæst stórlega, en um leið hefur greiningum fjölgað og börn allt niður í 2ja ára hafa greinst með sjúkdóminn. Með breyttum tímum hafa því þarfir MS fólks og aðstandenda þeirra breyst. MS-félagið vill aðlaga sig breyttum aðstæðum og þörfum félagsmanna og því köllum við aðstoð ykkar, MS-greindra og aðstandenda, til að leiða félagið inn í breytta tíma. Í því skyni boðum við til opins vinnufundar með stjórn og starfsmönnum félagsins undir leiðsögn Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, ráðgjafa og sérfræðings í stefnumótun félaga og fyrirtækja, þar sem þið fáið tækifæri til að móta með okkur nýjar stefnur og markmið sem félagið getur beitt sér fyrir.
„Þórey er með Bs. í viðskiptafræði frá HÍ með áherslu á alþjóðaviðskipti og MBA frá Háskólanum í Reykjavík og CEIBS viðskiptaháskóla, Sjanghæ, Kína. Þórey býr yfir 20 ára reynslu af fyrirtækjarekstri, stjórnun, stefnumótun, viðskipta- og vöruþróun, nýsköpun og teymisvinnu.
Hún hefur stofnað og stýrt fyrirtækjum bæði á Íslandi og í Rússlandi auk þess að leiða ýmis stór verkefni og viðburði. Þórey hefur einnig reynslu úr stjórnsýslu og stjórnmálum sem fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum m.a. í leikskólaráði og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þórey er formaður ferðamálaráðs sem er iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ráðgjafar í ferðaþjónustu.“ (www.capacent.is)
Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að vera með okkur í að leiða MS-félagið inn í nýja tíma að mæta og vinna með okkur!
Skráning er hér á síðunni, einnig er hægt að senda póst á msfelag@msfelag.is, eða hringja í skrifstofu í síma 568 8620