MSIF, alþjóðasamtök MS-félaga, styðja undirskriftarsöfnun á netinu sem ber yfirskriftina EVERYONE SHOULD HAVE ACCESS TO AFFORDABLE MEDICINE, eða „Allir ættu að hafa aðgang að lyfjum á viðráðanlegu verði“. Hér er ekki eingöngu átt við MS-lyf heldur öll nauðsynleg lyf sem fólk þarf á að halda svo sem krabbameinslyf, gigtarlyf og svo mætti áfram telja. Því miður hafa ekki allir í heiminum sömu tækifæri þegar kemur að aðgengi að lyfjum af þeirri einföldu ástæðu að lyf kosta of mikið og fólk hefur ekki efni á að kaupa þau.

 

Enn deyr fólk....

Miklar framfarir hafa átt sér stað í heilbrigðisþjónustu á undanförnum áratugum og miklum fjármunum er varið til þessa málaflokks víðast hvar. Í mörgum löndum er þó komið að þolmörkum, önnur lönd hafa þegar sagt „pass“ og önnur jafnvel aldrei átt möguleika. Lyfjaverð bara hækkar og hækkar. Það er sárt til þess að hugsa að enn deyja milljónir manna vegna þess að þeir hafa ekki efni á nauðsynlegum lyfjum. Þessu verður að breyta. Jafnt aðgengi allra að lyfjum hljóta að vera grundvallarrmannréttindi.

Markmiðið með undirskriftum frá fólki um allan heim er áskorun til allra hagsmunaaðila - frá sjúklingum til heilbrigðisstarfsfólks, frá stjórnendum iðnfyrirtækja til frumkvöðla – um að vinna sameiginlega að því að allir fái notið nauðsynlegra lyfja.

 

Tökum þátt í netkönnuninni

Í ár er stefnt að 100.000 undirskriftum fyrir alþjóðlega heilbrigðisdaginn, 7. apríl, en að ári er stefnt að 1 milljón undirskrifta. Við Íslendingar höfum aldrei látið okkar eftir liggja þegar kemur að því að styrkja góðan málstað og þrátt fyrir að við erum fámenn þjóð skiptir hvert okkar máli.

Allir geta tekið þátt, bæði MS-fólk og fjölskyldur þeirra, ættingjar og vinir, kunningjar og vinnufélagar. Skrá þarf inn nafn, heimabæ og netfang á slóðina hérog þá hefur þú lagt þitt að mörkum til að lyf verði á viðráðanlegu verði fyrir alla.

 

Hlekkir:

Vefsíðan til undirskriftar: www.accessourmedicine.com

Fésbók: http://bit.do/AOMFacebook 

Twitter:http://bit.do/AOMTwitter

Til að fylgjast með: https://twitter.com/AccessOurMeds

Til að gera að ánægjuefni: https://www.facebook.com/AccessOurMeds

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir