Á árum áður var fólki með MS ráðið frá því að stunda líkamsrækt eða reyna á sig af ótta við að sjúkdómseinkenni þeirra kynnu að versna. Nú er hins vegar öldin önnur og hefur verið sýnt fram á að hreyfing getur dregið úr þreytueinkennum og haft jákvæð áhrif á göngu, vöðvastyrk og almennt atgervi.

Ný dönsk rannsókn bendir þar að auki til þess að styrktarþjálfun, að minnsta kosti tvisvar í viku, geti haft taugaverndandi áhrif og þar af leiðandi hamlað þróun sjúkdómsins.

Rannsóknina unnu vísindamenn frá Aarhus Universitet, Aarhus Sygehus og Syddansk Universitet, ásamt vísindamönnum frá University Medical Center Eppendorf í Hamborg, Þýskalandi.

 

Rannsóknin

Í rannsókninni fylgdu vísindamennirnir 35 manns með MS í köstum eftir í sex mánuði. Rannsóknin tók ekki til einstaklinga sem búa við mikla skerðingu.

Þátttakendur fóru í gegnum hefðbundna styrktarþjálfun klukkustund í senn, 2 daga vikunnar. Teknar voru fjórar æfingar fyrir fætur og tvær æfingar fyrir efri hluta líkamans. Æfingarnar kröfðust ekki mikillar hreyfingar eða úthalds heldur miðuðu æfingarnar að því að styrkja vöðva og taugakerfi.

Helmingur hópsins fór í styrktarþjálfun tvisvar í viku en hinn helmingurinn hélt áfram venjubundnu lífi sínu án kerfisbundinnar þjálfunar.

Allir þátttakendur fóru í segulómun (MRI) á heila áður en rannsóknin hófst og að henni lokinni. Þátttakendur voru þar að auki metnir eftir klínískum fötlunarmælikvörðum.

 

Niðurstöðurnar

Niðurstöðurnar benda til þess að heilarýrnun sé minni hjá þeim sem þjálfa reglulega og með markvissum hætti, heldur en hjá þeim sem þjálfa ekki. Að auki var hægt að sjá að ákveðin svæði í heilanum, sem hafa með hreyfingu að gera, fóru jafnvel að endurnýja sig. Einnig kom í ljós að þjálfun hefur jákvæð áhrif á göngugetu og vöðvastyrk.

Enn er óljóst hvers vegna þjálfun hefur jákvæð áhrif á fólk með MS en það verður kannað í stærri rannsókn sem getur leitt til betri meðferðarúrræða.

Vísindamaðurinn Ulrik Dalgas leggur áherslu á þjálfun komi ekki í stað lyfja en segir niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að markviss þjálfun sé mun mikilvægari í meðferð en hingað til hefur verið talið.

 

Fáið ráðleggingar áður en þið byrjið að þjálfa

Markviss og regluleg þjálfun er því af hinu góða en enginn ætti að byrja massífa þjálfun án faglegrar leiðbeiningar, t.d. sjúkraþjálfara.

 

Hvað er í boði?

Hér á höfuðborgarsvæðinu stendur fólki með MS til boða styrktar- og jafnvægisþjálfun í hópi hjá Styrk sjúkraþjálfun, Höfðabakka 9 í Reykjavík, undir leiðsögn sjúkraþjálfara sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á þjálfun fólks með MS. Hóparnir eru tveir og er þátttakendum skipt í hópa eftir getu. Annar hópurinn æfir þrisvar í viku, hinn tvisvar. Æft er í stórum sal og eru æfingarnar mjög fjölbreyttar. Enginn tími er eins. Að auki er hjá Styrk mjög vel útbúinn tækjasalur. Sjá nánar hér og myndir hér.

Á Akureyri er stefnt að sams konar þjálfun nú í haust. Fylgist með á fésbókarsíðunni MS Eyjafjörður, sjá slóð hér.

 

 

Heimildir:

  • Grein í Multiple Sclerosis Journal, sjá hér
  • Fréttatilkynning frá Árósaháskóla, sjá hér
  • Frétt danska MS-félagsins, sjá hér

 

Bergþóra Bergsdóttir