Á þriðjudag var undirritaður samstarfssamningur milli Hokkídeildar Skautafélagsins Bjarnarins og Landsbankans. Merki MS-félagsins prýðir búninga Bjarnarins í meistaraflokki og Landsbankinn styrkir félagið um 500 þúsund kr. af þessu tilefni. MS-félagið kann báðum aðilum kærar þakkir fyrir og er stolt af því að fá að vera þátttakandi í verkefninu.

Frétt frá Landsbankanum
22. nóvember 2011

Nýr samstarfssamningur Landsbankans og Bjarnarins
MS-félagið á búningum Bjarnarins í stað Landsbankans

Skautafélagið Björninn og Landsbankinn hafa gert með sér samstarfssamning um stuðning bankans við félagið næstu tvö ár. Samhliða því hefur Landsbankinn afsalað sér auglýsingum á búningum hjá Birninum og boðið félaginu að velja sér í staðinn gott málefni á búningana. Björninn valdi MS-félagið og merki félagsins prýðir því búninga félagsins næstu ár.

Landsbankinn kynnti nýverið nýja stefnu í stuðningi bankans við íþróttafélög undir yfirskriftinni Samfélag í nýjan búning. Markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. Alls eru 23 íþróttafélög í samstarfi við Landsbankann um Samfélag í nýjan búning.

Stofnaður verður áheitasjóður fyrir Björninn og greiðir bankinn ákveðna upphæð fyrir hvern sigur meistaraflokka karla og kvenna á Íslandsmótum í íshokkí. Öðrum fyrirtækjum og einstaklingum er frjálst að heita á liðið sitt og leggja þannig góðu málefni lið. Í tilefni af stofnun áheitasjóðsins mun Landsbankinn styrkja Björninn með styrk að upphæð 500.000 krónur.

„Við erum mjög stolt af stuðningi okkar við Björninn. Hugmyndafræði bankans að baki verkefninu Samfélag í nýjan búning snýst um að tengja saman íþróttafélög og samtök eða félög sem láta að sér kveða í mannúðarmálum,“ segir Elínborg V. Kvaran, markaðsstjóri Landsbankans. „Með þessum hætti geta íþróttafélögin og stuðningsmenn þeirra eða aðrir styrktaraðilar tekið þátt í því með Landsbankanum að styðja við mannúðarmál.“

Fyrirmyndir verkefnisins
Verkefnið Samfélag í nýjan búning á sér fyrirmyndir. Í tengslum við Landsbankadeild karla og kvenna stóð Landsbankinn fyrir verkefninu Skorað fyrir gott málefni á árunum 2006-2007. Bankinn greiddi þá ákveðna upphæð fyrir hvert mark sem liðin skoruðu í tilteknum umferðum Landsbankadeildarinnar og rann hún til málefna sem félögin völdu sér. Markmiðið var þá eins og nú að tengja saman stuðning við íþróttir og mannúðarmál. Landsbankinn sækir einnig innblástur í framtak meistaraflokks kvenna í Aftureldingu sem síðustu þrjú ár hefur vakið athygli á árvekniátakinu Bleiku slaufunni með því að hafa hana framan á búningum liðsins.

Mynd:
Frá undirritun samstarfssamnings Bjarnarins og Landsbankans 23. nóvember. F.v.: Stefán Þórisson fulltrúi meistaraflokks, Elín Dögg Guðmundsdóttir gjaldkeri hokkídeildar, Þórmundur Jónatansson frá Landsbankanum, Berglind Ólafsdóttir framkvæmdastýra MS-félagsins, Sigurður Sigurðsson formaður hokkídeildar, Daníel Kjartan Ármannsson meðstjórnandi í MS-félaginu og Ingibjörg Steindórsdóttir formaður Bjarnarins. Fyrir framan þau eru Steinunn Sigurgeirsdóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna og Birkir Árnason fyrirliði meistaraflokks karla.