Nú fer að styttast í árlegt Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Eins og og undanfarin ár gefst þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka kostur á að hlaupa í þágu MS-sjúkdómsins eða annars góðs málefnis. Með því að heita á hlaupara hvetur þú þá til dáða og lætur jafnframt gott af þér leiða. Það geta allir heitið á þá hlaupara sem valið hafa að hlaupa til góðs í Reykjavíkurmaraþoninu, sem verður 21. ágúst. Hægt er að skrá áheit á auðveldan hátt á heimasíðunni www.hlaupastyrkur.is. Það eina sem þarf er kreditkort og tölva.

Vefur með persónulegum
upplýsingum um hlauparana
Í ár hafa aðstandendur Reykjavíkurmaraþonsins opnað sérstakan vef fyrir áheitasöfnun í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2010 á vefsvæðinu hlaupastyrkur.is Um er að ræða mun notendavænna umhverfi heldur en unnið hefur verið í undanfarin ár. Nýi vefurinn er nokkuð svipaður og reyndar byggður á sama grunni og vefur Mottumars sem sló heldur betur í gegn fyrr á þessu ári.

Á vefnum geta hlauparar sett inn myndir af sér og sagt frá því hversvegna þeir hafa valið að hlaupa fyrir tiltekið góðgerðafélag. Auk þess að greiða áheit með kreditkorti eins og verið hefur undanfarin ár verður einnig hægt að heita á hlaupara með því að senda sms. Það er von okkar að nýr vefur setji aukinn kraft í áheitamálin og skili tekjum í okkar þörfu málefni. Upplýsingar um hlaupið verða einnig á Facebook-síðu MS-félagsins.

Það er gleðilegt að segja frá því að tekist hefur að lækka töluvert kostnað sem góðgerðafélögin þurfa að greiða af söfnuðu fé. Lækkun á kostnaði fæst meðal annars vegna þess að Íslandsbanki hefur ákveðið að greiða allan kostnað við gerð nýs vefs, Vodafone hefur ákveðið að fella niður kostnað við sms sendingar og Borgun hefur samþykkt að lækka kostnað við kortafærslur.

Áheit gilda til miðnættis
miðnættis 23. ágústs
Nú eins og áður þurfa hlauparar að skrá sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþonið á vefsíðunni www.marathon.is/reykjavikurmaraton. Þegar því er lokið geta þeir farið inná hlaupastyrkur.is og virkjað söfnun sína með því að velja „nýskráning“. Þau sem vilja heita á hlaupara fara beint inná hlaupastyrkur.is og velja þar einstaklinga eða boðhlaupslið sem þau vilja heita á. Senda þarf áheitanúmer viðkomandi sem texta í sms skilaboðum eða ganga frá greiðslu með kreditkorti til að áheit skili sér.

Hægt er að heita á hlaupara fram að miðnætti mánudaginn 23. ágúst en hlaupið fer fram laugardaginn 21. ágúst.

Vefur Reykjavíkurmaraþonsins: http://www.marathon.is/reykjavikurmaraton

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða þurfið aðstoð er velkomið að hafa samband á aheit@marathon.is eða hringja í síma 535 3700. Þá er að sjálfsögðu hægt að afla upplýsinga hjá MS-félaginu.  -hh