Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Á undanförnum vikum hefur verið unnið að nýrri vefsíðu fyrir MS-félagið. Eins og títt er með stór og góð verkefni þá taka þau lengri tíma en ætlað er. Allt er hins vegar að smella saman þessa dagana. Nýtt útlit vefsíðunnar mun líta dagsins ljós öðru hvoru megin við helgina, sem verður þó ekki endanlegt útlit hennar þar sem verið er að vinna að enn flottara útliti og þægilegra aðgengi að efni.
Það sama á við um efnisinnihald síðunnar. Mikið hefur verið skrifað af efni með ýmsum fróðleik og upplýsingum sem mun verða sett inn eða skipt út fyrir það sem fyrir er á næstu dögum og vikum.
Nýjungar verða kynntar hér á vefsíðunni eftir því sem þær koma inn.
Helga Kolbeinsdóttir, starfsmaður félagsins, mun hafa umsjón með nýju vefsíðunni en Helga hefur átt veg og vanda að uppsetningu og innsetningu á efni.
Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi MS-félagsins, mun hins vegar sjá um fræðsluefnið á vefsíðunni og skrifa áhugaverðar fréttir um það helsta sem er að gerast í „MS-heiminum“.
Bergþóra og Alissa Logan Vilmundardóttir Eaton, fræðslufulltrúi unga fólksins, skrifuðu efni fyrir nýju vefsíðuna.
Eins og áður segir, mun vefsíðan verða í áframhaldandi vinnslu og mótun á næstu vikum. Lesendur vefsíðunnar eru því hvattir til að sýna biðlund og skoða reglulega nýjar viðbætur og framfarir.
Gamla vefsíða félagsins var algjörlega barn síns tíma, bæði í útliti og umsýslu. Félagið var byrjað að skoða í kringum sig þegar vefhönnunarfyrirtækið Stefna hafði samband og bauðst til að gefa félaginu nýjan vef.
Hjá Stefnu er mikið lagt upp úr samfélagslegri ábyrgð og að styrkja gott málefni með því að gefa vef og þannig efla starf þess félags sem um ræðir. Þegar starfsfólk Stefnu leit í kringum sig í leit að félagi sem gæti notið góðs af skaut nafni MS-félagsins fljótt upp kollinum Áður höfðu Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og Einstök börn fengið slíka gjöf.
Starfsfólk Stefnu hefur lagt mikinn metnað í nýja vefinn og vandað til verka í hönnun, uppbyggingu og skipulagi.
MS-félagið þakkar þessu góða fyrirtæki og starfsfólki þess kærlega fyrir gjöfina og einstaklega góða og lipra samvinnu og hlakkar til áframhaldandi samskipta.