Þunglyndi er ekki það sama og að finna fyrir depurð eða leiða, heldur langvinnt og alvarlegt ástand sem truflar daglegar athafnir. Þunglyndi er því sjúkdómur sem ber að taka alvarlega. Þunglyndur einstaklingur hættir að hafa ánægju af því sem honum þótti áður skemmtilegt, hann hættir að sinna áhugamálum og missir áhugann á því að hitta vini og fjölskyldu. Sumir telja jafnvel að lífið sé ekki lengur þess virði að lifa því.

Sýnt hefur verið fram á að meira er um þunglyndi hjá fólki með MS, borið saman við heilbrigt fólk og einstaklinga með aðra alvarlega sjúkdóma, en rannsóknir benda til að MS-skemmdir á ákveðnum stöðum í heila geti valdið þunglyndi.

 

Allir geta þróað með sér þunglyndi, hvenær sem er. Þunglyndi getur stafað af áfalli og streituvaldandi atburðum, s.s. ástvinamissi, skilnaði, fæðingu barns eða atvinnumissi en einnig spila erfðir inn í og ef einstaklingur á við langvinnan sjúkdóm eins og MS að stríða. Lyfja- og áfengisnotkun getur einnig orsakað þunglyndi. Félagsleg einangrun getur verið bæði orsök og afleiðing.

 

Mismunandi alvarleikastig 

Þunglyndi getur verið vægt, í meðallagi eða alvarlegt og varað í lengri eða skemmri tíma. 

  • Vægt þunglyndi er þegar einstaklingur hefur fá einkenni sem ekki hafa mjög mikil áhrif á daglegt líf hans.
  • Meðaldjúpt þunglyndi er þegar einstaklingur hefur fleiri einkenni sem gera daglegt líf erfiðara en venjulega.
  • Alvarlegt þunglyndi er þegar einstaklingur hefur mörg einkenni sem gera daglegt líf mjög erfitt.

Fólk getur fundið fyrir mismunandi alvarleikastigum þunglyndis á mismunandi tímum.

 

Einkenni

En hver eru einkennin, sem geta, eins og áður segir, verið margvísleg og mis alvarleg? Hægt er að fara inn á vefsíðu Reykjalundar þar sem sjá má greinargóðan lista yfir einkennin, sjá hér.

Til að meta andlega líðan sína er best að fara inn á vefsíðu Landlæknis og fara í gegnum vellíðunarkvarðann, sjá hér og taka sjálfspróf, sjá hér.

Sé samanlagður stigafjöldi undir 13 á vellíðunarkvarðanum eða ef merkt er oftar en 4-5 sinnum við „já“ á sjálfsprófinu er um þunglyndi að ræða en ekki tímabundna depurð og því ástæða til að leita sér aðstoðar.

 

Sem betur fer er ýmislegt hægt að gera til að takast á við þennan erfiða sjúkdóm sem hrjáir svo marga. Fyrsta skrefið er að einstaklingurinn viðurkenni vandann og leiti sér aðstoðar, t.d. með því að ræða við einhvern úr fjölskyldunni eða tala við heimilislækni. Lesa má nánar um meðferð við þunglyndi í næsta pistli.

 

 

Heimild hérhér, hér, hér, og hér

Mynd: Creative Common leyfi

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

 

Gagnlegar vefsíður:

Handbók í hugænni atferlismeðferð (Reykjalundur)

Þjóð gegn þunglyndi (Landlæknir)

Að þekkja þunglyndi (Landlæknir)

Hvað er þunglyndi? (attavitinn.is)

Þunglyndi ástvinar (attavitinn.is)

Þunglyndi (MS-félagið)

Þunglyndi og kvíði (MS-félagið)

Þunglyndi: Hvað er til ráða? (MS-félagið)