Vöðvaspenna, spasmar og verkir eru ekki óalgeng MS-einkenni en ýmislegt er hægt að gera til að draga úr óþægindum vegna þessara einkenna.

Hvers kyns hreyfing, sjúkraþjálfun og teygjur eru grundvallaratriði í meðferð ásamt réttri líkamstöðu í hvíld og við vinnu.

 

Mikilvægt er að þú reynir sjálf(ur) að átta þig á hvað getur valdið vöðvaspennunni og verkjunum og að þú bregðist við. Það væri til dæmis með því að forðast þreytu, sofa vel eða athuga hvort líkamlegt eða andlegt álag sé of mikið. Einnig að athuga hvort um sýkingu sé að ræða, hvort sjúkraþjálfun sé ábótavant eða hvort bæta megi teygjuæfingar eða eigin æfingar.

 

Gulls ígildi og góð forvörn er að hreyfa sig eins og hægt er, t.d. með gönguferðum eða sundi, gera teygjur og æfingar daglega og gefa sér tíma í djúpslökun. Á vefsíðunni fá finna fjölbreyttar æfingar hér.

Meðhöndlun felst hins vegar í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og lyfjameðferð. Athugið að nú fellur greiðsla vegna sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.

Iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari geta mögulega aðstoðað við að yfirfara aðstæður á heimili eða á vinnustað með tilliti til líkamsstöðu við vinnu og hvíld og ráðlagt um notkun hjálpartækja ef á þarf að halda.

 

Að vera með langvarandi verki getur verið mjög íþyngjandi, bæði líkamlega sem andlega. Hægt er að halda „sársaukadagbók“ til að læra á sjálfan sig og forðast þannig aðstæður sem geta framkallað verki. Í einhverjum tilfellum er hægt að þjálfa athyglina frá sársaukanum á meðan verkirnir standa yfir, þ.e. að færa sársaukann frá því að vera í forgrunni til að vera meira í bakgrunni, með því til dæmis að „temja hugann“ eða hafa eitthvað áhugavert og skemmtilegt fyrir stafni.

Á YouTube fá finna ýmsar hugleiðslu- og öndunaræfingar til að hjálpa til við slökun og tamningu hugans.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

 

Annar fróðleikur:

Hópþjálfun hjá Styrk, sjúkraþjálfun, Höfðabakka 9, sjá hér og myndir hér

Fjölbreyttar æfingar, sjá hér

Líkamleg einkenni MS, sjá hér

Greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga, sjá hér