Þessi grein er framhald af pistlinum Þjáist þú af þunglyndi? Þar er að finna slóðir og leiðbeiningar til að meta andlega líðan sína.

Ýmislegt er hægt að gera til að takast á við þunglyndi. Fyrsta skrefið er að einstaklingurinn viðurkenni vandann og leiti sér aðstoðar, t.d. með því að ræða við einhvern úr fjölskyldunni eða tala við heimilislækni. Ef einstaklingur gerir sér ekki grein fyrir því að hann þjáist af þunglyndi, en vinum og fjölskyldu er það augljóst, geta þeir leitað sér ráðgjafar, sjá Hagnýt símanúmer hér neðar.

Sálfræðimeðferð samhliða lyfjameðferð er talið sýna bestan árangur í meðferð þunglyndis, sérstaklega þegar um alvarlegt þunglyndi er að ræða.

 

Þunglyndi getur verið vægt, meðaldjúpt eða alvarlegt og varað í lengri eða skemmri tíma. Eðli málsins samkvæmt eru sömu meðferðarúrræðum ekki beitt við vægu og alvarlegu þunglyndi. 

Vægt þunglyndi 

er þegar einstaklingur hefur fá einkenni sem ekki hafa mjög mikil áhrif á daglegt líf hans.

Við vægu þunglyndi getur verið nægjanlegt að huga að heilbrigðari lífsstíl, eins og að auka líkamsþjálfun, bæta mataræði ef þörf er á, draga úr streitu, bæta svefn og gefa sér tíma í reglulega slökun. Einnig gæti verið gott að ræða við einhvern um það sem íþyngir, eins og einhvern úr fjölskyldunni eða traustan vin. Þá gæti verið ráð að tala við heimilislækni eða hringja í hjálparsíma, sjá hér neðar. HAM-meðferð þykir gagnleg og þarf ekki alltaf mikla sérfræðiaðstoð til við vægu þunglyndi, en hægt er að nálgast handbók um HAM ókeypis á vefsíðu Reykjalundar hér.

HAM (hugræn atferlismeðferð) hefur reynst mörgum mjög vel til að ná og viðhalda bata í þunglyndi og kvíða með því að draga úr neikvæðum hugsunum og auka virkni.

Náms- og starfsráðgjafar geta gefið góð ráð ef þunglyndið tengist á einhvern hátt námi eða atvinnu, sjá hér.

 

Meðaldjúpt þunglyndi 

er þegar einstaklingur hefur fleiri einkenni sem gera daglegt líf erfiðara en venjulega.

Við meðaldjúpu þunglyndi er full ástæða til að panta tíma hjá heimilislækni til að spyrja hann ráða. Hann getur eftir atvikum vísað áfram til sérfræðings, eins og sálfræðings eða geðlæknis, vísað til meðferðar á geðheilsusviði Reykjalundar, veitt lyfjameðferð og/eða ráðlagt HAM-námskeið. Breyting á lífsstíl gæti einnig gagnast.

Lyfjameðferð miðar að því að bæta líðan sem auðveldar að takast á við þunglyndiseinkenni, eins og neikvæðar hugsanir og óvirkni. 

Alltaf er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 eða í Læknavaktina í síma 1770 til að fá ráðleggingar og aðstoð.

 

Alvarlegt þunglyndi

er þegar einstaklingur hefur mörg einkenni sem gera daglegt líf mjög erfitt.

Nauðsynlegt er að fá alla þá aðstoð sem í boði er, og það sem fyrst. Allan sólarhringinn er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 eða í Læknavaktina í síma 1770 til að fá ráðleggingar og aðstoð.

Einnig er hægt að fara á bráðamóttöku geðsviðs LSH á virkum dögum frá kl. 12-19 og um helgar og alla helgidaga frá kl. 13-17. Í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins er hægt að leita til næstu heilbrigðisstofnunar á opnunartíma en utan opnunartíma er best að hringja í síma 1717 eða 1770 til að fá ráðleggingar um hvert best er að leita.

 

Hagnýt símanúmer

  • Hjálparsími Rauða krossins s. 1717
  • Læknavaktin s. 1770
  • Bráðamóttaka geðsviðs LSH s. 543 4050  kl. 12 - 19 á virkum dögum og kl. 13 - 17 um helgar og alla helgidaga. Í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
  • Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi s. 543 2000

 

 

Heimild hér, hér og hér

Mynd Creative Common leyfi

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Gagnlegar vefsíður:

Hjálparsími Rauða krossins 1717

Læknavaktin 1770

Bráðamóttaka geðsviðs LSH

Handbók í hugænni atferlismeðferð (Reykjalundur)

Geðheilsuteymi Reykjalundar

Slökunaræfingar með Eydísi

Slökunartónlist (Friðrik Karlsson)

Þreyta og svefntruflanir: Góð ráð (MS-félagið)

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Þjóð gegn þunglyndi (Landlæknir)

Meðferð (Landlæknir)

Þjáist þú af þunglyndi? (MS-félagið)