Eins og þeir vita sem hafa fylgst með lyfjamálunum hefur MS-fólk nú beðið í talsverðan tíma eftir nýja töflulyfinu Gilenya. Þetta lyf kemst næst Tysabri í virkni og er komið í notkun í grannlöndum okkar. MS-félagið hafði fregnað að lyfið færi ekki í almenna notkun á þessu ári en hafði þann skilning að ákveðinn hópur sjúklinga, sem hefur þurft eða þarf að hætta á Tysabri vegna aukinnar áhættu á PML-heilabólgu, myndi fá undanþágu. Enn hefur þó ekki orðið af því og samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands stendur ekki til að taka lyfið í notkun á þessu ári.

Þrátt fyrir að sú krafa hljóti alltaf að vera uppi að sjúklingar fái aðgang að bestu mögulegu meðferð á hverjum tíma, hefur félagið skilning á því að Gilenya fari ekki í almenna notkun á þessu ári. Það er þó skýlaus krafa félagsins að þeir einstaklingar sem hafa þurft að hætta, eða koma til með að þurfa að hætta,á Tysabri meðferð vegna aukinnar hættu á PML-heilabólgu fá undanþágu.

Fyrir helgi sendi félagið bréf á valda aðila vegna þessa til að þrýsta á um úrbætur í þessum efnum. Bréfið var einnig sent á alla helstu fjölmiðla.

Bréfið í heild sinni má lesa hér.