Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Frá vinstri: Sara (Svíþjóð), Steinar, Camilla og Roy (Noregur), Julia og Evgeni (Finnland), Katrine og Louise (Danmörk), Emilia (Svíþjóð) og að lokum Eva og Símon frá Íslandi.
Um helgina fóru fulltrúar frá Íslandi til Kaupmannahafnar þar sem fram fóru tökur á stuttmynd.
Stuttmyndin er samvinnuverkefni ungra fulltrúa á Norðurlöndunum, sem sitja í Norrænu ráði MS félaga (NMSR).
Á myndinni eru frá vinstri:Símon og Eva, fulltrúar Íslands, Julia fulltrúi Finnlands, Steinar og Camilla, fulltrúar Noregs og Evgeni fulltrúi Finnlands.
Verkefnisstjóri er Helga Kolbeinsdóttir, ritari NMSR og starfsmaður MS-félagsins og voru því samtals þrír Íslendingar með í för, en í myndinni verða fulltrúar frá Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi. Íslensku fulltrúarnir eru þau Eva Þorfinnsdóttir og Símon Rafn Björnsson. Fulltrúar landanna fimm tala í myndbandinu um reynslu sína af því að lifa með MS, helstu áskoranir og hvaða drauma þau hafa fyrir framtíðina. Verkefnið á sér langan aðdraganda, en framkvæmd varð að veruleika nú í vor eftir mikla undirbúningsvinnu og eru það NMSR og Nordisk kulturfond sem fjármagna gerð myndarinnar.
Stuttmyndinni, sem verður um 3-5 mínútur að lengd, er ætlað að auka þekkingu og skilning á MS sjúkdómnum. Þá er henni einnig ætlað að vekja athygli á MS-félögum landanna fimm, en í lokin verða birtar vefslóðir þeirra.
Hluti hópsins nýtur sólarinnar í miðbæ Kaupmannahafnar eftir að tökum lauk á sunnudag.
Tökur stóðu yfir í tvo daga, en það er fyrirtækið Nerd Productions sem vinnur myndina og er áætlað að hún verði tilbúin til sýningar í lok maí. Myndinni verður dreift á samfélagsmiðlum, og vonumst við til að hún nái sem víðast og veki athygli á málefnum ungs fólks með MS á Norðurlöndunum.