“Ég hef hvergi legið á sjúkrahúsi, þar sem mér hefur þótt hjúkrunarfólkið sýna jafnmikla hlýju og sinna okkur sjúklingunum af meiri kostgæfni en á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði,” sagði einn af fjölmörgum MS-sjúklingum, sem hafa farið í sterameðferð á sjúkrahúsinu. Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins skrifaði grein í Morgunblaðið, þar sem hún vakti athygli á mikilvægi þjónustu St. Jósefsspítala fyrir MS-sjúklinga í ljósi þess að breyta eigi hlutverki St. Jósefsspítala.

Hér er grein Sigurbjargar “Tryggja þarf nauðsynlega þjónustu fyrir MS-sjúklinga” sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 23. janúar, 2009:

Sigurbjörg Ármannsdóttir, form. MS félagsinsÍ FJÖLMÖRG ár hefur St. Jósefsspítali sinnt MS-sjúklingum, sem hafa þurft skammtímameðferð með innlögn vegna sjúkdóms síns. Tugir MS-sjúklinga hafa notið þessarar þjónustu árlega síðastliðin ár, en hún felst í meðferð með bólgueyðandi sterum, sem gefnir eru í æð í þrjá til fimm daga, við bráðaköstum í MS-sjúkdómnum, til þess að reyna að milda köstin og stytta þau. Með þessum hætti er hægt að reyna að hafa áhrif á eða hægja á framgangi sjúkdómsins.

Eftir sameiningu Borgarspítala og Landspítala, þegar taugasjúkdómadeild fluttist í húsnæði Landspítala – Háskólasjúkrahúss í Fossvogi, hefur reynst nær ógerlegt fyrir MS-sjúklinga að fá innlögn í steragjöf nema á St. Jósefsspítala. Starfsfólk St. Jósefsspítala býr yfir ómetanlegri reynslu og þekkingu á MS-sjúkdómnum, sem ekki má glatast.

St. Jósefsspítali hefur því gegnt ákaflega mikilvægu hlutverki í meðferð MS-sjúklinga, þótt það sé ekki á allra vitorði.
Því þykir MS-félaginu nauðsynlegt að vekja máls á því að þessi ómetanlega og dýrmæta þjónusta verði áfram aðgengileg fyrir skjólstæðinga okkar.

Í umfjöllun um málefni St. Jósefsspítala hefur hvergi verið minnst á þennan mikilvæga þátt í starfseminni og hvað verður um hann.
MS-sjúklingar hafa nú í rúmt ár búið við mikla óvissu og kvíða vegna meðferðar með nýju lyfi, Tysabri, og eykur þessi ákvörðun um breytingar á starfsemi spítalans enn á óvissuna.

Við skorum því á ráðherra heilbrigðismála að beita sér fyrir því að sú góða þjónusta, sem MS-fólk fær á St. Jósefsspítala, verði áfram aðgengileg og skýrt komi fram hvar hún verði í boði eftir boðaðar breytingar á St. Jósefsspítala.

Fyrir hönd MS-félags Íslands,
SIGURBJÖRG ÁRMANNSDÓTTIR, formaður.