Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs í Kópavogi, afhenti í dag MS-félagi Íslands 2 milljóna króna styrk til stækkunar á húsnæði fyrir dagvist félagsins. Styrkurinn var afhentur í húsnæði Dagvistar- og endurhæfingarmiðstöðvar MS sjúklinga að Sléttuvegi 5 í Reykjavík. Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins, veitti styrknum viðtöku.

MS-félagið hefur rekið dagvistina í meira en 20 ár en hún var stofnuð í þeim tilgangi að veita MS sjúklingum umönnun og endurhæfingu sem vegna fötlunar sinnar þurftu á aðstoð við daglegar athafnir að halda. Til dagvistarinnar hafa MS sjúklingar búsettir í Kópavogi getað sótt enda er þjónustan veitt óháð búsetu. Dagvistin getur tekið á móti 40 manns á dag en þar sem skjólstæðingarnir koma ekki allir dag hvern njóta um manns 70 þjónustunnar.

Um er að ræða umfangsmikla og mikilvæga þjónustu hjúkrunarfræðinga, lækna, félagsráðgjafa, sjúkraþjálfa, listmeðferðarfræðinga og sjúkraliða.

„MS-félagið starfar að velferð þeirra sem haldnir eru MS-sjúkdómnum og mér er kunnugt um að nokkur fjöldi Kópavogsbúa hefur orðið þess stuðnings aðnjótandi,“ sagði Ómar Stefánsson við afhendingu styrkfjárhæðarinnar. „Mér er því heiður og ánægja að afhenda fyrir hönd Kópavogsbæjar þennan styrk til að stækka aðstöðu dagvistar félagsins og vona að hann verði einnig öðrum hvatning til að styðja við starfsemi MS-félagsins.“

„MS-félagið réðst í að stækka húsnæði Dagvistarinnar fyrir ári þar sem farið var að þrengja mjög að starfseminni,“ segir Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins. „Við erum mjög þakklát Kópavogsbæ fyrir þennan myndarlega styrk.“

Auk Sigurbjargar Ármannsdóttur veittu Berglind Guðmundsdóttir, gjaldkeri MS-félagsins, og Ingdís Líndal skrifstofustjóri styrknum viðtöku fyrir hönd félagsins.
Formaður MS-félagsins lýsir starfsemi þess fyrir Aðalsteini Sigfússyni, félagsmálastjóra Kópavogs, Ómari Stefánssyni, formanni bæjarráðs, Þór Jónssyni, forstöðumanni almannatengsla, og Gunnari I. Birgissyni bæjarstjóra.
Meðal viðstaddra voru m.a. f´.h. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri
Kópavogsbæjar, Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi, Ómar Stefánsson og
Aðalsteinn Davíðsson, félagsmálastjóri.

Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs, og Þór Jónsson, forstöðumaður almannatengsla, spjalla við Svanfríð Kjartansdóttur.
Ómar Stefánsson heilsar Svanfríði Kjartansdóttur. Þór Jónsson fylgist með.