Í gær, 1. apríl 2009, lækkaði verð á Tysabri um 18,5% að raunvirði og er nú til samræmis við meðalverð lyfsins í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. MS-félagið fagnar þessum tíðindum og bindur vonir við að þetta muni flýta fyrir því að allir fái lyfið, sem gagn hafa af því.

“Í gær, 1. apríl 2009, lækkaði verð á Tysabri um 18,5% að raunvirði og er nú til samræmis við meðalverð lyfsins í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Miðað við sölu Tysabri á síðasta ári gerir lyfjagreiðslunefnd ráð fyrir um 18 milljóna króna lækkun á greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna lyfsins miðað við eitt ár.

Formaður MS-félagsins, Sigurbjörg Ármannsdóttir, segir þessa lækkun mjög jákvæða fyrir alla þá sem gera sér vonir um að fá lyfið og fyrir þá sem nú þegar eru á lyfinu. Hún segir MS-sjúklinga vera eina sjúklingahópinn sem fái ekki bestu lyfin við sjúkdómi sínum og slíkt sé erfitt við að una. Ársskammtur Tysabri kostar nú tæplega 3,7 milljónir króna en meðalverð eldri lyfja nemur rúmlega 2,1 milljón króna. Sigurbjörg telur kostnaðarauka af Tysabri vega fyllilega upp ávinninginn af notkun þess.

Um 130 MS-sjúklingar af þeim um 360 sem eru með sjúkdóminn hérlendis eru á fyrirbyggjandi meðferð. Þar af hafa 45 einstaklingar fengið Tysabri nú þegar. Gera má ráð fyrir að rúmlega 80 aðrir MS-sjúklingar bíði eftir að komast á Tysabri.

Fram kom hjá Birni Zöega, framkvæmdastjóra lækninga á LSH, í yfirlýsingu frá 23. marz s.l.,.að til hafi staðið gefa 50 MS-sjúklingum lyfið á síðasta ári. Hins vegar hafi orðið töf þar á og sé aðalástæðan sú að erlend reynsla sýni að aukaverkanir geti verið lífshættulegar, sem gefi tilefni til aukinnar varfærni. MS-félagið hefur bent á að sú áhætta hafi enn sem komið er reynst langt undir uppgefnum áhættuviðmiðum. Ekki er óeðlilegt að ætla að með aukinni notkun Tysabri í heiminum fjölgi tilfellum sjaldgæfrar, en hættulegrar aukaverkunar lyfsins, sem er svokölluð PML-heilabólga. Það hefði enda komið í ljós að þrátt fyrir fimm nýleg PML–tilfelli frá því að lyfið var markaðssett í Evrópu og Bandaríkjunum árið 2006 og dauðsfall tengt PML á síðasta ári, hafi lyfjaeftirlit í Evrópu og Bandaríkjunum ákveðið að draga lyfið ekki af markaði. Kostir Tysabri eru einfaldlega taldir vega miklu þyngra en áhættan því samfara. Ekki má þó gera lítið úr þessari áhættu og því er vel fylgst með þróuninni hjá eftirlitsstofnunum.

MS-sjúklingar gera sér grein fyrir að lífinu fylgir alltaf áhætta sem getur komið úr óvæntum áttum og er víðar að finna en við Tysabri-meðferð. Öllum lyfjum fylgir einhver áhætta. Eldri MS-lyf eru t.d. á engan hátt vandræða- og áhættulaus.”

Stjórn og framkvæmdastjóri MS-félags Íslands